Margrét Lára: Liggur við að maður sé með gæsahúð allan leikinn

Margrét Lára skorar á þjóðina að mæta á Laugardalsvöll. Leikurinn …
Margrét Lára skorar á þjóðina að mæta á Laugardalsvöll. Leikurinn hefst kl. 18:10. mbl.is/Golli

„Ég skora á fólk að mæta. Ég held að þjóðinni veiti ekki af að fá góðar fréttir og vonandi sýnir hún bara samhug í verki og mætir á leikinn,“ sagði markadrottningin Margrét Lára Viðarsdóttir í samtali við mbl.is en í dag kl. 18:10 leika Ísland og Írland á Laugardalsvelli seinni umspilsleik sinn um sæti á sjálfu Evrópumótinu í knattspyrnu.

„Ég skora á fólk því við leikmennirnir, þjálfarar og knattspyrnusambandið í heild eigum það skilið að fólk mæti og leggi hönd á plóg við að koma okkur áfram í þessari keppni. Við erum búnar að undirbúa okkur eins vel og við getum og nú þarf fólk bara að mæta á leikinn og hvetja okkur, því við förum alla leið,“ sagði Margrét Lára, sem hefur líkt og flestir leikmenn liðsins fundið fyrir mikilli eftirvæntingu og spennu síðustu daga.

„Núna er að duga eða drepast“

„Ég get alveg viðurkennt að spennustigið er búið að vera hátt og eftirvæntingin er mikil. Hún er enn meiri fyrst við erum að spila fyrir framan okkar fólk og það er bara toppurinn fyrir okkur í landsliðinu að spila svona úrslitaleik á þessum frábæra velli fyrir framan þjóðina. Það liggur við að maður sé með gæsahúð allan leikinn þegar maður spilar hérna og við ætlum okkur bara áfram. Núna er að duga eða drepast,“ sagði Margrét Lára. Hún segir erfitt að meta möguleika íslenska liðsins sem er þó í betri stöðu eftir að hafa náð 1:1-jafntefli á Írlandi.

„Það er voða erfitt að segja hvort liðið á að vera betra. Það eina sem skiptir máli er þessi leikur og við fundum alveg fyrir því á Írlandi að þær hafa bætt sig mikið. Þær ætla sér áfram alveg eins og við og við verðum bara að eiga okkar besta leik til að fara áfram.

Erum allar hungraðar

Það eru leikmenn hérna sem hafa upplifað langan tíma með landsliðinu og vita að það er að duga eða drepast núna til að komast á stórmót. Það sama má segja um okkur yngri leikmennina, við erum hungraðar og viljum spila á meðal þeirra bestu, og ég held að hópurinn í heild eigi eftir að sýna það á morgun,“ sagði Margrét Lára, sem ætlar að fagna vel ef sigur vinnst og Ísland eignast í fyrsta skipti fulltrúa á stórmóti í knattspyrnu.

„Ég ætla að fríka út,“ sagði Margrét Lára létt. „Nei nei, en ég held að maður eigi eftir að missa sig í gleðinni. Fyrst og fremst yrði þetta samt frábært fyrir íslensku þjóðina og íslenskan kvennafótbolta í heild sinni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert