KA komst í dag upp fyrir Hauka í 2. sæti fyrstu deildar karla í knattspyrnu með 5:3 sigri á ÍR í fjörugum leik á Akureyrarvelli í fyrsta leik 9. umferðar. Fylgst var með gangi mála í textalýsingu hér á mbl.is.
Ungverjinn David Disztl gerði þrennu fyrir heimamenn og Andri Fannar Stefánsson og Bjarni Pálmason eitt mark hvor. Guðfinnur Þórir Ómarsson, Árni Freyr Guðnason og Haukur Ólafsson gerðu mörk ÍR-inga sem eru í sjötta sæti deildarinnar. Sandor Forizs leikmaður KA fékk að líta rauða spjaldið skömmu fyrir leikslok.
19:15 KA - ÍR 5:3 (leik lokið)
David Disztl kom KA yfir með marki á níundu mínútu en Guðfinnur Þórir Ómarsson jafnaði metin á 13. mínútu. Árni Freyr Guðnason kom svo gestunum í 2:1 mínútu síðar. Erlingur Jack Guðmundsson fékk gullið tækifæri til að koma ÍR í 3:1 eftir hálftíma leik en Sandor Matus varði vítaspyrnu hans. Disztl jafnaði svo metin fyrir heimamenn í 2:2 með skallamarki úr þröngu færi á 48. mínútu eftir fyrirgjöf Dean Martin.
Ungverjinn Disztl fullkomnaði þrennuna sína og kom KA í 3:2 á 61. mínútu með skoti af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá hægri kanti. Andri Fannar Stefánsson kom KA í 4:2 þegar hann „klobbaði“ markvörð ÍR-inga af yfirvegun á 81. mínútu. Haukur Ólafsson minnkaði muninn í 4:3 með marki úr vítaspyrnu á 88. mínútu. KA-maðurinn Sandor Forizs fékk að líta rauða spjaldið á 89. mínútu en það kom ekki að sök því Bjarni Pálmason innsiglaði sigur KA með glæsilegu marki í uppbótartíma.