Margir gera tilkall til sætis í byrjunarliðinu

Íslensku U21 árs landsliðsmennirnir fagna sigri gegn Skotum í haust.
Íslensku U21 árs landsliðsmennirnir fagna sigri gegn Skotum í haust. mbl.is/Craig Watson

Hvernig mun Eyjólfur Sverrisson þjálfari U21 árs landsliðsins í knattspyrnu stilla upp byrjunarliði sínu þegar það stígur á stóra sviðið í Árósum í Danmörku þann 11. júní í sumar og mætir Hvít-Rússum í fyrsta leiknum í úrslitakeppni Evrópumótsins?

Þessari spurningu velta margir fyrir sér og ekki síst eftir góða frammistöðu liðsins í leikjunum á móti Úkraínu og Englandi sem voru lokaleikirnir áður en flautað verður til leiks á átta liða stórmótinu í Danmörku.

Það vantaði stór nöfn í íslenska liðið í leikjunum á móti Úkraínumönnum og Englendingum. Gylfi Þór Sigurðsson, Aron Einar Gunnarsson, Kolbeinn Sigþórsson, Rúrik Gíslason, Jóhann Berg Guðmundsson og Eggert Gunnþór Jónsson. Enginn þeirra tók þátt í leikjunum þar sem þeir voru uppteknir með A-landsliðinu og Framarinn Jón Guðni Fjóluson og KR-ingarnir Skúli Jón Friðgeirsson gátu ekki spilað vegna meiðsla sem þeir eiga við að stríða. Alfreð Finnbogason, Birkir Bjarnason, Arnór Smárason og Hjörtur Logi Valgarðsson komu ekkert við sögu í leiknum á móti Úkraínumönnum í Kænugarði en komu inn í liðið og tóku þátt í frækilegum sigri á Englendingum í Preston.

Eftir þessa tvo leiki er ljóst að Eyjólfur hefur mörg járn í eldinum. Þvílíkt er mannvalið sem hann hefur úr að spila og svo kallaðir „minni spámenn“ sem fengu að spreyta sig í leikjunum gegn Úkraínu og Englandi nýttu tækifærið vel. Þar má nefna leikmenn eins Björn Bergmann Sigurðarson og Aron Jóhannsson. Fleiri gerðu það gott og staðan er einfaldlega sú að enginn á í raun öruggt sæti í byrjunarliðinu.

Þurfa að vera á tánum

Það liggur í augum uppi að samkeppnin er gríðarlega hörð um sæti í byrjunarliðinu og á næstu vikum ríður á fyrir drengina sem gera tilkall í liðið og í lokahópinn að þeir haldi sig efnið, verði á tánum og standi sig vel með sínum félagsliðum á næstu vikum í æfingum og í leikjum, hvort sem það er á Englandi, í Belgíu, í Þýskalandi, í Noregi, í Svíþjóð, í Hollandi eða heima á Fróni.

Það verður skemmtilegur höfuðverkur fyrir Eyjólf og aðstoðarmann hans, Tómas Inga Tómasson, að stilla upp byrjunarliðinu í fyrsta leik. Margir eru kallaðir en aðeins 11 byrja. Til gamans langar undirritaðan að stilla upp hugsanlegu byrjunarliði. Það gæti hæglega litið öðruvísi út en að því gefnu að allir verði heilir og klárir í slaginn lítur lið mitt þannig út:

Markvörður: Haraldur Björnsson.

Hægri bakvörður: Guðlaugur Victor Pálsson.

Vinstri bakvörður: Hjörtur Logi Valgarðsson.

Miðverðir: Jón Guðni Fjóluson, Eggert Gunnþór Jónsson.

Miðjumenn: Bjarni Þór Viðarsson, Aron Einar Gunnarsson, Gylfi Þór Sigurðsson.

Hægri kantur: Rúrik Gíslason.

Vinstri kantur: Alfreð Finnbogason.

Framherji: Kolbeinn Sigþórsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert