Naumt 3:2 tap fyrir Frökkum

Frakkland og Ísland áttust við í vináttulandsleik í knattspyrnu karla í Valenciennes í Frakklandi í kvöld. Frakkland sigraði 3:2 eftir að Ísland hafði verið yfir 2:0 að loknum fyrri hálfleik. Þar með eru Frakkar ósigraðir í síðustu 19 landsleikjum sínum.

Ísland hafði 2:1 forystu þar til á 85. mínútu en þá skoruðu Frakkar tvívegis með tveggja mínútna millibili. Niðurstaðan því sú sama og í frægum leik í París í undankeppni EM árið 1999.

Birkir Bjarnason skoraði fyrsta markið á 28. mínútu og Kolbeinn Sigþórsson bætti við marki á 34. mínútu. Mathieu Debuchy minnkaði muninn á 52. mínútu og Franck Ribery jafnaði á 85. mínútu. Adil Ramy skoraði sigurmarkið á 87. mínútu.

90. mín: Leiknum er lokið. Frakkar fagna 3:2 sigri eftir að hafa lent 0:2 undir í fyrri hálfleik. Frönsku áhorfendurnir eru ánægðir með niðurstöðuna en þeim leist ekki á blikuna um tíma.

87. mín: Mark! Staðan er 3:2 fyrir Frakkland. Íslenska liðið hefur misst niður tveggja marka forskot. Olivier Giraud skallaði boltann fyrir Adil Ramy sem þrumaði boltanum í netið úr miðjum vítateignum en Giroud lagði einnig upp annað markið. Lítið sem Hannes gat gert við þessu í markinu.

85. mín: Mark! Staðan er 2:2. Franck Ribery skoraði laglegt mark á 85. mínútu. Eftir þríhyrningsspil fékk Ribery boltann skoppandi á markteigshorninu vinstra megin og lyfti snyrtilega yfir Hannes og í fjærhornið. Ribery hefur verið mjög sprækur þær mínútur sem hann hefur spilað.

80. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Ekki er útlit fyrir að Frakkar vinni þennan leik en sóknarlotur þeirra eru þó farnar að þyngjast á ný. Stórstjarnan Franck Ribery kom inn á sem varamaður á 75. mínútu. Þá kom einnig Jóhann Berg Guðmundsson inn á fyrir Rúrik Gíslason.

70. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Helgi Valur Daníelsson er kominn inn á miðjuna í stað Eggerts Gunnþórs Gunnarssonar. Frakkarnir hafa gert fjölmargar breytingar og misstu aðeins taktinn í framhaldinu.

62. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Birkir Bjarnason fékk dauðafæri til að skora sitt annað mark og koma Íslandi í 3:1. Ari Freyr Skúlason renndi boltanum inn á teiginn vinstra megin og þar kom Gylfi Þór Sigurðsson á ferðinni. Hann leit upp og renndi boltanum inn á miðjan teiginn og þar var Birkir óvaldur og renndi sér í boltann en markvörður Frakka sá við honum og varði.

60. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Ari Freyr Skúlason leysti Hjört Loga Valgarðsson af hólmi sem vinstri bakvörður á 58. mínútu.

52. mín: Mark! Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Frakkarnir eru búnir að brjóta ísinn. Eftir látlausa sókn í upphafi síðari hálfleiks tókst þeim að skora á 52. mínútu. Benzema átti skot í varnarmann og boltinn barst fyrir Mathieu Debuchy sem renndi boltanum í netið af markteig. Eyjólfur Héðinsson kom inn á fyrir markaskorarann Kolbein Sigþórsson í hálfleik.

50. mín: Staðan er 2:0 fyrir Ísland. Síðari hálfleikurinn hefst á stórsókn Frakka sem ætla sér greinilega að minnka muninn sem allra fyrst. Vafalaust verður nóg um að vera í vítateig Íslands í síðari hálfleik.

45. mín: Staðan er 2:0 fyrir Ísland að loknum fyrri hálfleik. Frönsku áhorfendurnir eru allt annað en sáttir við gang mála. Frakkarnir þyngdu reyndar sóknirnar talsvert undir lok fyrri hálfleik og hálfleiksflaut belgíska dómarans var því kærkomið. Karim Benzema var tvívegis aðangsharður undir lok hálfleiksins.

34. mín: Mark! Staðan er 2:0 fyrir Ísland. Þetta er merkileg tíðindi svo ekki sé meira sagt. Rúrik Gíslason komst upp hægra kantinn og gaf frábæra fyrirgjöf inn á markteiginn og þar var markvarðahrellirinn Kolbeinn Sigþórsson skrefinu á undan frönsku varnarmönnunum og potaði boltanum í netið. Frönsku áhorfendurnir baula á sína menn. 

28. mín: Mark! Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Kolbeinn Sigþórsson náði að skalla boltann inn á vítateig Frakka. Rangstöðutaktík Frakka brást og Birkir Bjarnason var aleinn í teignum og þrumaði boltanum í vinstra hornið og skoraði örugglega. Ísland hefur tekið forystuna á móti Frökkum og stemningin á vellinum var ekkert sérstök þegar boltinn lá í netinu hjá heimamönnum.

15. mín: Staðan er 0:0. Mark var dæmt af Frökkunum á 14. mínútu þegar Karim Benzema framherji Real Madrid setti boltann neðst í hægra hornið frá vítateigslínu. Markið var dæmt af vegna rangstæðu. Hætta skapaðist á markteig Frakka á 8. mínútu þegar Rúrik Gíslason vann boltann eftir lélega sendingu frá Patrice Evra. Rúrik gaf fyrir markið, franski markvörðurinn fór út en náði ekki að halda boltanum, en íslenska sóknarmenn vantaði inn á markteiginn. Kolbeinn Sigþórsson átti auk þess skot frá vítateigslínunni en franskur varnarmaður komst fyrir. 

5. mín: Staðan er 0:0. Leikurinn er hafinn. Íslendingar leika í hvítum búningum í dag. Áhorfendabekkirnir eru þéttsetnir enda tefla Frakkar fram mörgum stórstjörnum.

Byrjunarlið Íslands:

Markvörður

Hannes Þór Halldórsson

Hægri bakvörður

Hallgrímur Jónasson

Vinstri bakvörður

Hjörtur Logi Valgarðsson

Miðverðir

Ragnar Sigurðsson og Kári Árnason

Hægri kantur

Rúrik Gíslason

Vinstri kantur

Gylfi Þór Sigurðsson

Miðtengiliðir

Aron Einar Gunnarsson (fyrirliði) og Eggert Gunnþór Jónsson

Framherjar

Birkir Bjarnason og Kolbeinn Sigþórsson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka