Íslenskt Zlatan-mark

Viktor Jónsson.
Viktor Jónsson. mbl.is/Ómar

Mikið hefur verið fjallað um fjórða markið sem Zlatan Ibrahimovic skoraði fyrir Svía gegn Englendingum í vináttulandsleiknum í fyrrakvöld. Nú er komið á daginn að íslenskur leikmaður hefur skorað mark með svipuðum tilþrifum þó umgjörðin hafi verið önnur.

Þar er um að ræða Viktor Jónsson, núverandi sóknarmann Víkings í Reykjavík. Atli Rúnar Halldórsson, fréttamaðurinn gamalkunni, skrifaði eftirfarandi færslu á Facebook þar sem hann rifjaði upp mark sem Viktor gerði á Essomóti KA á Akureyri fyrir nokkrum árum:

„Magnað fjórða markið hjá sænska Zlatan gegn Tjöllum í gærkvöld. Rifjaðist upp að ég sá Viktor Jónsson, núverandi framherja Víkings í 1. deild, skora svipað mark fyrir þónokkrum árum á ESSO-móti á Akureyri, strák sem spilaði þá í B-liði 5. flokks! Hann var enn lengra út á vellinum en Zlatan og tók bakfallsspyrnu í bríarrí. Boltinn fór í háum boga áleiðis að marki andstæðinganna, datt niður aftan við markvörðinn og skaust upp í þaknetið í markinu. Lygilegt mark og miklu meira en það. Auðvitað brast á allsherjarfögnuður allra sem urðu vitni að þessum fádæmum. Áhangendur liðsins sem fékk glæsimarkið á sig fögnuðu ekki síður en hinir og markið varð umtalað á mótinu og í kjölfar þess. Viktor fékk að heyra að hann myndi aldrei á lífsleiðinni skora aftur svo glæsilega, sama hversu langt sem hann næði í sparkfaginu. Þetta leika þeir bara einu sinni á ævinni, Viktor og Zlatan.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert