Er ekki sáttur við að svona fari

Arnar Grétarsson.
Arnar Grétarsson. Ljósmynd/Kristján Bernburg

Það eru breytingar framundan hjá Arnari Grétarssyni sem hefur starfað sem yfirmaður knattspyrnumála hjá belgíska knattspyrnuliðinu Club Brugge.

Arnar, sem var ráðinn til starfans í byrjun árs 2013 og gerði fjögurra ára samning, lætur af störfum um næstu mánaðamót.

„Maður er auðvitað ekki sáttur við að þetta fari svona. Ég hefði viljað vera lengur því þetta er frábær klúbbur. Stjórnin tók þá ákvörðun að breyta til og þar af leiðandi verður mitt starf minna í sniðum. Starfssviðið minnkar töluvert og ég tók þá ákvörðun í samráði við stjórnina að þetta myndi ekki ganga upp fyrir mitt leyti,“ sagði Arnar í samtali við Morgunblaðið í gær.

Í vor var Michel Preud'homme ráðinn þjálfari Club Brugge til næstu fimm ára. Hann fékk aukin völd og stærra hlutverk en gengur og gerist hjá þjálfurum í Belgíu. Starfi hans í dag má líkja við knattspyrnustjórana sem starfa á Englandi.

„Ég ákvað að gefa þessu tækifæri í byrjun tímabilsins en maður verður að vera trúr sjálfum sér. Þetta var ekki það starf sem ég kom hingað til að vinna. Því finnst mér réttast að láta staðið numið og það eru engin leiðindi í kringum þetta. Þeir skilja mína ákvörðun. Það er verið að breyta skipulagi hjá félaginu og það er nokkuð sem ég verð að sætta mig við, sem ég geri og skil en líður ekki vel með,“ sagði Arnar.

Sjá allt viðtalið við Arnar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert