Er búinn að stimpla sig vel inn

Haukur Heiðar Hauksson lék með KR áður en hann skrifaði …
Haukur Heiðar Hauksson lék með KR áður en hann skrifaði undir samning við AIK. Mbl.is/Eggert Jóhannesson

Akureyringurinn Haukur Heiðar Hauksson hélt á vit atvinnumennskunnar í vetur eftir stórgott tímabil með KR-ingum á síðustu leiktíð.

Haukur samdi við sænska liðið AIK til fjögurra ára og bakvörðurinn eldfljóti hefur náð að stimpla sig vel inn í sænsku úrvalsdeildina. Hann hefur spilað alla sjö leiki AIK í deildinni en liðið er í fjórða sæti með 14 stig.

Morgunblaðið sló á þráðinn til Hauks í gær en hann átti þá frídag og naut dagsins í afslöppun í góða veðrinu í Stokkhólmi eins og hann orðaði það.

Spurður hvernig honum líki lífið í atvinnumennskunni segir Haukur Heiðar: „Mér líkar bara mjög vel. Ég hef fengið að spila alla leikina og það er virkilega gott og mikilvægt. Það er ekkert sjálfgefið þegar maður fer í nýtt lið að maður komist beint inn í byrjunarliðið. Mér hefur gengið vel í leikjunum. Það tekur auðvitað tíma hjá nýju liði og í nýrri deild að átta sig á hlutunum, venjast hraðanum sem er töluvert meiri en heima á Íslandi. En mér finnst ég hafa náð góðum tökum á þessum hlutum og það er mikilvægt að ég nýt trausts þjálfarans. Hann hefur treyst mér í þeim sjö leikjum sem eru búnir og vonandi verður það áfram þannig,“ sagði Haukur Heiðar.

AIK er stórveldi í Svíþjóð og hefur 11 sinnum orðið sænskur meistari, síðast árið 2009. Þá hefur liðið átta sinnum orðið bikarmeistari, en það hafnaði í 3. sæti á nýafstaðinni leiktíð og spilar í Evrópudeildinni í sumar.

„Við erum búnir að vera svona upp og niður í þessum fyrstu leikjum en vonandi náum við meiri stöðugleika þegar líður á. AIK er stór klúbbur sem á að vera í toppbaráttu og við stefnum að sjálfsögðu að því. Við erum þremur stigum frá Malmö sem er í efsta sæti. Flest liðin eru að keppa við Malmö sem komst í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í fyrra. Þeim er spáð sigri í deildinni í ár en við getum vonandi veitt liðinu keppni.“

Sjá allt viðtalið íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert