Blatter fagnar aðgerðunum

Prince Ali bin al-Hussein og Sepp Blatter eru í kjöri …
Prince Ali bin al-Hussein og Sepp Blatter eru í kjöri til forsetaembættis FIFA á föstudaginn. AFP

Sepp Blatter, forseti FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins, sendi fyrir stundu frá sér yfirlýsingu þar sem hann fagnar aðgerðum yfirvalda í Bandaríkjunum og Sviss, sem rannsaka nú meintar mútur og spillingu innan sambandsins.

Í yfirlýsingunni segir: „Þetta er erfiður tími fyrir knattspyrnuna, fyrir stuðningsmenn hennar og fyrir FIFA sem samtök. Við skiljum vel vonbrigðin sem margir hafa látið í ljós og ég veit að atburðir dagsins munu móta afstöðu margra gagnvart okkur.

Eins óheppilegir og þessir atburðir eru, þá viljum við samt að það komi skýrt fram að við fögnum aðgerðum og rannsóknum bandarískra og svissneskra yfirvalda, og trúum því að það muni styrkja þær aðgerðir sem FIFA hefur þegar gripið til í því skyni að útrýma óheilindum úr knattspyrnunni.

Þó margir verði ósáttir við þann tíma sem það mun taka að koma þessum breytingum í gegn, vil ég benda á þær aðgerðir sem við höfum þegar gripið til og munum halda áfram með. Í raun og veru fór þetta allt af stað þegar við afhentum svissneskum yfirvöldum viðamikla skýrslu seint á síðasta ári.

Ég vil leggja áherslu á að misgjörðir eins og þessar eiga ekki heima í knattspyrnunni og við munum tryggja að þeir sem taka þátt i þeim verði gerðir brottrækir úr íþróttinni. Í kjölfar atburðarásarinnar í dag hefur okkar óháða siðanefnd, sem sjálf er að skoða hvernig staðið var að úthlutun HM 2018 og 2022 brugðist fljótt við og sett þá einstaklinga sem yfirvöld hafa nefnt í bann frá öllum afskiptum af knattspyrnu, heima fyrir sem á alþjóða vettvangi."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert