Ætlar að brjótast aftur inn í landsliðið

Guðlaugur Victor Pálsson.
Guðlaugur Victor Pálsson. mbl.is/Eva Björk

„Þeir sýndu mér mikinn áhuga og mér líst vel þetta,“ sagði knattspyrnumaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson í samtali við mbl.is skömmu eftir að hafa skrifað undir þriggja ára samning við danska félagið Esbjerg, en hann kemur til félagsins frá Helsingborg í Svíþjóð.

„Helsingborg er í svo miklum fjárhagslegum erfiðleikum að þeir gátu nánast ekki sagt nei við tilboðinu. Félagið er eiginlega bara korteri frá gjaldþroti,“ sagði Guðlaugur Victor, sem segir það hins vegar ekki hafa haft áhrif inn í liðið sjálft. Ekki ennþá í það minnsta.

„Ég er ánægður að geta hjálpað til svo þeir fái peninginn. Staðan er slæm hjá Helsingborg og þeir voru búnir að gefa út að þurfa að selja leikmenn. Þjálfarinn sagði við mig að ef staðan væri betri hefði hann ekki selt mig,“ sagði Guðlaugur Victor, en haft var eftir honum í sænskum miðlum á dögunum að hann ætlaði að halda kyrru fyrir. Nokkuð er þó síðan Esbjerg sýndi honum áhuga fyrst.

„Þetta hefur verið í gangi í svolítinn tíma, en svona upp og niður. Þeir sýndu fyrst áhuga fyrir mánuði síðan og ferlið var langt en það kláraðist allt í dag,“ sagði Guðlaugur Victor, sem hefur verið á miklum faraldsfæti síðustu ár og var ekki þannig lagað að hugsa sér til hreyfings eftir aðeins eitt ár í Svíþjóð.

Guðlaugur Victor Pálsson í leik með Helsingborg.
Guðlaugur Victor Pálsson í leik með Helsingborg. Ljósmynd/Gunnar Elíson

Ein erfiðasta ákvörðun sem ég hef þurft að taka

„Það var aldrei planið að fara í þessum félagaskiptaglugga eða næsta heldur. Ég var kominn hingað til liðs þar sem mér hefur liðið vel hjá og í borginni einnig. Þetta var mjög erfið ákvörðun, ein sú erfiðasta sem ég hef þurft að taka. En maður hlustaði á hjartað og mér eftir á að hyggja finnst mér þetta rétt,“ sagði Guðlaugur Victor.

Hann segir eina ástæðu fremur en aðra hafa ráðið miklu í ákvörðun sinni að halda til Danmerkur, og það er að bæta við þá fjóra A-landsleiki sem hann á að baki.

„Ég hef verið að spila miðvörð hjá Helsingborg og þar sem ég vil berjast aftur inn í íslenska landsliðið tel ég meiri möguleikana meiri að komast inn sem miðjumaður. Það vilja allir spila fyrir Ísland og ég vil það líka mjög mikið. Ég hef verið hluti af þessum hópi og það er alveg meiri háttar. Ég vil geta tekið þátt í komandi ævintýrum, ég ætla mér að spila vel fyrir nýja félagið og vonast eftir því að fá aftur kallið inn í landsliðið,“ sagði Guðlaugur Victor Pálsson við mbl.isí dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert