Ramos enn og aftur bjargvætturinn

Sergio Ramos fagnar sigurmarkinu í kvöld.
Sergio Ramos fagnar sigurmarkinu í kvöld. AFP

Real Madrid er komið í efsta sæti spænsku 1. deildarinnar í knattspyrnu en liðið vann Real Betis 2:1 á heimavelli í kvöld.

Erkifjendur Madrídinga í Barcelona töpuðu fyrir Deportivo La Cor­una fyrr í dag og Real því með tveggja stiga forskot á Börsunga á toppnum en auk þess eiga höfuðborgarpiltarnir leik inni. Real Madrid er með 62 stig en Barcelona 60.

Keylor Navas, markvörður Real Madrid, kom gestunum yfir með einkar klaufalegu sjálfsmarki á 25. mínútu. Antonio Sanabria skaut að marki og Navas virtist ætla að grípa boltann. Hann missti hins vegar takið á boltanum og nánast sló hann í eigið net.

Cristiano Ronaldo jafnaði metin á 41. mínútu með hörkuskalla og staðan 1:1 að loknum fyrri hálfleik. Cristiano Piccini fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt á 78. mínútu og gestirnir því manni færri síðustu mínúturnar.

Varnarjaxlinn Sergio Ramos kom heimamönnum til bjargar eins og svo oft áður en Ramos skoraði sigurmarkið með hörkuskalla níu mínútum fyrir leikslok og tryggði Madrídingum öll stigin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert