Rapinoe hellti sér yfir FIFA

Megan Rapinoe brosmild á fréttamannafundinum í Lyon.
Megan Rapinoe brosmild á fréttamannafundinum í Lyon. AFP

Megan Rapione, varafyrirliði bandaríska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, hellti sér yfir FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandið, á fréttamannafundi í Lyon í gærkvöld og sagði að sambandið sýndi konum í íþróttinni lítilsvirðingu.

Rapinoe sagði að það væri ótrúleg ákvörðun hjá FIFA að leyfa að úrslitaleikur Ameríkubikarsins og úrslitaleikur Gullbikarsins (meistarakeppni Norður- og Mið-Ameríku), færu fram sama dag og úrslitaleikur Bandaríkjanna og Hollands í heimsmeistarakeppni kvenna.

Leikurinn hefst kl. 15.00 í Lyon í dag en klukkan 20 mætast Brasilía og Perú í úrslitaleik Ameríkubikarsins í Ríó og klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma hefst úrslitaleikur Mexíkó og Bandaríkjanna í Chicago í Gullbikarnum.

„Þetta er hræðilegt plan fyrir alla. Fyrir þá sem vinna við fótboltann eða spila fótbolta er hræðileg hugmynd á allan hátt að setja þessa þrjá úrslitaleiki alla á sama daginn,“ sagði Rapinoe.

„Vissulega eru þetta úrslitaleikir í öðrum mótum en við erum að tala um úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar og þann dag á að fresta öllu öðru. Ég veit ekki hvað gerðist eiginlega, einhvers staðar las ég að þeir hefðu bara ekki hugleitt þetta og það er vandamál í sjálfu sér.

Úrslitaleikur heimsmeistarakeppninnar er settur á með svo löngum fyrirvara að það er hreint ótrúlegt að þetta hafi gerst. Nei, ég tel að við njótum ekki sömu virðingar og karlarnir hjá FIFA,“ sagði Megan Rapinoe.

Hvers vegna leyfið þið bilinu að breikka?

Hún vék líka máli sínu að verðlaunafénu sem deilt er út á heimsmeistaramótum karla og kvenna. Gianni Infantino forseti FIFA sagði á föstudag að hann vildi að verðlaunaféð á HM kvenna yrði tvöfaldað og þar með hækkað í 60 milljónir dollara. Á HM karla í Rússlandi í fyrra var verðlaunaféð 400 milljónir dollara og það hækkar í 440 milljónir fyrir HM í Katar 2022.

„Það er alls ekki sanngjarnt. Við ættum að tvöfalda það strax, og nota síðan þá tölu til að tvöfalda eða fjórfalda það næst. Þetta er það sem ég á við þegar ég segi að okkur finnist við ekki njóta virðingar. Ef þið berið jafnmikla umhyggju fyrir leiknum, hvar sem er, hvers vegna leyfið þið þá þessu bili að breikka? Ég er ekki að segja að verðlaunaféð hjá okkur ætti að fara beint í 450 milljónir núna eða næst. Ég veit að af ýmsum ástæðum er karlafótboltinn kominn fjárhagslega lengra en kvennafótboltinn.

En ef þið viljið sýna virðingu, látið þið þá þetta bil breikka, látið þið þá þrjá úrslitaleiki fara fram á sama deginum? Nei, það gerið þið ekki,“ sagði Megan Rapinoe.

Yfirlýsing frá talsmanni FIFA

Alþjóðaknattspyrnusambandið sendi fréttastofu Reuters yfirlýsingu eftir fundinn þar sem talsmaður FIFA sagði: „Niðurröðun þessara þriggja mismunandi viðburða fór í gegnum ítarlegt ferli þar sem allir hagsmunaaðilar komu við sögu og tekið var tillit til mismunandi hluta á alþjóðlegu dagatali bæði kvenna og karla. FIFA og álfusamböndin hafa farið yfir leikjaáætlunina til að forðast alla mögulega árekstra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert