Ísland með leikmenn sem við þurfum að gæta okkur á

Oleksandr Zinchenko er fyrirliði og lykilmaður í liði Úkraínu.
Oleksandr Zinchenko er fyrirliði og lykilmaður í liði Úkraínu. AFP/Adrian Dennis

Oleksandr Zinchenko, fyrirliði úkraínska landsliðsins í knattspyrnu og leikmaður Arsenal á Englandi, segir að búið sé að skoða vel íslensku mótherjana fyrir úrslitaleik þjóðanna um sæti á EM 2024 sem fram fer í Wroclaw í Póllandi annað kvöld.

„Undirbúningurinn gengur vel, og svo verðum við að sjá til hvað okkur tekst að sýna þegar flautað verður til leiks. Æfing er eitt og leikur er allt annað. Við þurfum að sýna hvað við getum, spila okkar besta leik, en ég tel okkur vera með gott lið og góða leikmenn,“ segir Zinchenko í viðtali á heimasíðu úkraínska knattspyrnusambandsins.

Vilja beita skyndisóknum

„Við leggjum mikla áherslu á okkar leik á æfingunum en við höfum líka skoðað íslenska liðið vel og séð hverjir styrkleikar þess og veikleikar eru. Svo sjáum við til hvernig fer. Íslendingar vilja spila með fjögurra manna vörn og beita skyndisóknum. Þeir eru með leikmenn sem við þurfum að gæta okkur á. En fyrst og fremst þarf hver og einn okkar að ná fram sínu besta,“ segir Zinchenko sem leikur oft sem vinstri bakvörður með Arsenal en leikur á miðjunni hjá Úkraínu.

„Ég tel að miðað við þann stuðning áhorfenda sem við fáum sé þetta allt í okkar höndum. Okkur hefur verið sagt að völlurinn verði fullur sem er mjög skemmtilegt. Stuðningur okkar fólks hjálpar alltaf,“ segir Zinchenko og minnti síðan fólk á stríðsástandið í Úkraínu sem hefur staðið yfir í rúm tvö ár, síðan Rússar réðust inn í landi.

Úkraína þarf stuðning heimsins

„Það er líka nauðsynlegt að árétta á hverjum degi að Úkraína þarf stuðning heimsins og það er nauðsynlegt að láta vita af því. Það þarf að minna fólk á það, annars gleymist það. Ég hef áður sagt að Úkraína í dag er skjöldur allrar Evrópu. Í dag er stríðið í okkar landi, á morgun getur það verið komið yfir í þitt land. Við verðum að styðja hvert annað. Það góða mun alltaf sigra hið illa,“ segir Oleksandr Zinchenko.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert