Bode Miller: Drekk alltaf fyrir keppni

Bode Miller er sér á báti sem fyrr.
Bode Miller er sér á báti sem fyrr. Reuters

Bandaríski skíðakappinn Bode Miller er þekktur fyrir að fara ekki troðnar slóðir og haga sér ekki eins og íþróttamaður í fremstu röð. Í viðtali við þýska blaðið Die Welt svaraði hann spurningum um lyfjapróf og áfengisneyslu tæpitungulaust.

Blaðamaður Die Welt ræddi við Miller sem nú er staddur í Lake Louise í Kanada og býr sig undir brunkeppni í heimsbikarnum annað kvöld. Þar lýsti hann yfir því að lyfjapróf væru mesti óþarfi. „Það er enginn munur á því að nota lyf og að fara í augnaðgerð. Ef þú sérð illa, ferðu í aðgerð. Er það svindl? Vandamálið er að lyfjapróf tryggja engan veginn að menn hafi rétt við og allir sjá að þau eru tilgangslaus. Lyfjapróf eru ekkert annað en tíma- og peningasóun," sagði skíðakappinn.

Hann er þekktur fyrir að skemmta sér ótæpilega og hefur áður viðurkennt að hafa farið undir áhrifum áfengis í skíðabrekkurnar. Spurningu Die Welt um hvort hann væri hættur því svaraði hann þannig: „Nei, ég fæ mér alltaf slurk af áfengi áður en ég fer í brautina, það skerpir mig."

Í lok viðtalsins spurði blaðamaðurinn hvort hann mætti leggja fyrir hann eina spurningu í viðbót. „Nei, þú ert búinn að sóa tímanum nóg með þessum heimskulegu spurningum," svaraði Miller og gekk á brott.

Miller er ekki í samfloti við aðra í bandaríska landsliðinu í vetur en hann ferðast um og gistir í sínum húsbíl og æfir uppá eigin spýtur fyrir keppni í heimsbikarnum.

Bode Miller, sem varð þrítugur í október, er einn af aðeins fimm skíðamönnum frá upphafi sem hafa unnið heimsbikarmót í öllum fimm greinunum, svigi, stórsvigi, risasvigi, bruni og tvíkeppni. Hann hefur orðið heimsmeistari fjórum sinnum, í stórsvigi og tvíkeppni 2003 og í risasvigi og bruni 2005. Þá fékk hann tvenn silfurverðlaun á Ólympíuleikunum 2002.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert