Allur glans er farinn af Lance

Lance Armstrong kemur í mark Tour de France-mótsins árið 2004.
Lance Armstrong kemur í mark Tour de France-mótsins árið 2004. AFP

Hjólreiðaíþróttin hefur átt undir högg að sækja. Hver hjólreiðakappinn á eftir öðrum hefur orðið ber að því að nota lyf og fleiri ólögmætar aðferðir til að bæta frammistöðu sína. Nú bendir allt til þess að Lance Armstrong, sem eitt sinn var kallaður konungur frönsku hjólreiðakeppninnar Tour de France, verði sviptur öllum sjö titlum sínum.

Armstrong var fremsti hjólreiðamaður heims þegar hann var greindur með krabbamein í eistum árið 1996. Krabbameinið hafði breiðst út í lungu og heila og horfurnar voru ekki góðar. Eftir að hafa farið í skurðaðgerð og lyfjameðferð byrjaði hann að æfa á ný og stofnaði um leið góðgerðasamtök til stuðnings krabbameinsrannsóknum. 1998 byrjaði hann að keppa á ný og árið eftir sigraði hann í Tour de France í fyrsta skipti, annar Bandaríkjamaðurinn til að vinna það afrek. Næstu fjögur árin hélt hann uppteknum hætti og sigraði í Tour de France. Nokkrum vikum áður en keppni hófst árið 2004 birtust fullyrðingar um að hann hefði tekið lyf til að bæta frammistöðu sína í bók eftir David Walsh og Pierre Ballester. Enn hjólaði Armstrong til sigurs. Í apríl 2005 tilkynnti hann að hann hygðist hætta keppni. Um sumarið sigraði hann sjöunda sinni í Tour de France. Í ágúst birti franska blaðið L'Equipe ásakanir um að lyfið eryþropoietin hefði mælst í sex þvagsýnum, sem tekin voru hjá Armstrong árið 1999 og fryst.

Árið 2006 voru sýnin skoðuð og reyndust ekki standast vísindalegar kröfur þannig að niðurstöðurnar voru ómarktækar. Sama ár sigraði Floyd Landis í Tour de France en var sviptur titlinum vegna þess að hann féll á lyfjaprófi.

Fjöldi staðhæfinga og ásakana hefur komið fram síðan um meinta lyfjanotkun Armstrongs. Hann hefur alltaf neitað staðfastlega. Á föstudag lagði hann hins vegar árar í bát og tilkynnti bandaríska lyfjaeftirlitinu, USADA, að hann hygðist ekki verjast ákærum þess fyrir gerðardómi.

Lyfjaeftirlitið kvaðst í júní hafa sannanir fyrir því að Armstrong hefði notað bönnuð efni, þar á meðal frá fyrrverandi liðsfélögum hans.

Armstrong hefur talað um nornaveiðar, en sagði á vefsíðu sinni á föstudag að nú væri nóg komið: „Ég er hættur þessari vitleysu.“ Hann bætti við að kjarni málsins væri sá að hann hefði staðist hundruð lyfjaprófa á ferlinum og farið eftir öllum reglum þegar hann hjólaði í Tour de France.

Travis Tygart, stjórnandi USADA, vill hins vegar taka alla titla, sem Armstrong hefur unnið til frá 1. ágúst 1998, af honum og sagði að föstudagurinn væri „sorgardagur fyrir íþróttir“.

Ekki einfalt að taka titlana

Bandaríska lyfjaeftirlitið, USADA, krefst þess að Lance Armstrong verði sviptur öllum titlum sínum frá 1. ágúst 1998 eftir að hann ákvað að verjast ekki ásökunum um lyfjamisnotkun á föstudag.

Það gæti hins vegar orðið flóknara en að segja það. Alþjóðlega lyfjaeftirlitið, Wada, hefur sett fyrningarreglur brota. Samkvæmt þeim eru öll brot Armstrongs á reglum um misnotkun lyfja í íþróttum, sem framin voru fyrir 2004, fyrnd. Því væri aðeins hægt að svipta hann tveimur titlum af sjö í Tour de France.

Þegar Daninn Bjarne Riis játaði að hafa brotið reglurnar 2007 átti að svipta hann titlinum, en alþjóðlega hjólreiðaíþróttasambandið skarst í leikinn og sagði brotið fyrnt þar sem hann hefði sigrað í Tour de France 1996.

Verði Armstrong engu að síður sviptur titlunum kemur upp vandræðaleg staða, sem ekki myndi auka hróður keppninnar. Þjóðverjinn Jan Ullrich sem var í öðru sæti 2000, 2001 og 2003, var síðar dæmdur í keppnisbann útaf lyfjum. Andreas Klöding var í öðru sæti 2004. Hann hefur sætt þungum ásökunum um lyfjamisnotkun. Ítalinn Ivan Basso varð annar 2005. Árið síðar var hann útilokaður frá keppni í Tour de France vegna lyfjahneykslis.

Segir ákvörðun ígildi játningar

John Fahey, forseti alþjóðlega lyfjaeftirlitsins, Wada, segir ákvörðun Armstrongs um að hætta að verjast ásökunum um lyfjamisnotkun viðurkenningu á að fótur sé fyrir þeim. Hann hefur ekki tjáð sig um afstöðu eftirlitsins til kröfu bandaríska lyfjaeftirlitsins, USADA, um að Armstrong verði sviptur öllum titlum frá 1. ágúst 1998.

Lance Armstrong á góðri stund.
Lance Armstrong á góðri stund. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert