Ferðaþreytan kom ekki að sök

Kári Steinn Karlsson.
Kári Steinn Karlsson. mbl.is/Golli

„Þetta var frábært, ég náði að kreista út nokkrar sekúndur síðustu kílómetrana til að ná markmiðinu,“ sagði Kári Steinn Karlsson í samtali við Morgunblaðið í gær, en hann hafði þá um morguninn bætt eigið Íslandsmet í hálfmaraþoni í Berlín. Kári kom sautjándi í mark á tímanum 1:04,55 klst og bætti eigið met um tæpar tuttugu sekúndur.

Kári segir að í aðdraganda hlaupsins hafi hann horft til þess að hlaupa á undir 65 mínútum, en eftir að hafa lent í miklum ævintýrum á leiðinni út var hann nokkuð svartsýnn á að það mundi ganga eftir.

„Við flugum í gegnum Osló, en vegna veðurs var mikil seinkun þar og við misstum af flugi líka svo við þurftum að standa í miklu brasi að redda því,“ sagði Kári, sem var ekki kominn til Berlínar fyrr en á laugardag, en þann dag hafði hann hugsað sér að nota til hvíldar og lokaundurbúnings fyrir hlaupið.

„Það var því pínu erfitt að halda sér jákvæðum, en það breytist allt þegar skotið var af byssunni í startinu. Þá gleymir maður öllu,“ sagði Kári, sem sagði nokkurn mótvind hafa verið framan af hlaupi, en hann var í þéttum hópi meðal fremstu manna og var því í góðu skjóli.

Með í för er Þorbergur Ingi Jónsson, sem einnig tók þátt í hlaupinu, en hann kom í mark á tímanum 1:07,53 klst og bætti eigin árangur. Þeir koma til landsins aftur á morgun, en næst á dagskrá hjá Kára er Hamborgarmaraþonið í lok apríl og taka nú við æfingar fyrir það.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert