Veit að þetta verður erfitt

Indriði Sigurðsson er kominn aftur í KR-búninginn.
Indriði Sigurðsson er kominn aftur í KR-búninginn. mbl.is/Sindri

„Það eina sem hefði getað komið í veg fyrir þetta var að KR hefði ekki viljað mig. Svo var ekki, sem betur fer,“ sagði Indriði Sigurðsson, eftir að hafa samið um að leika með knattspyrnuliði KR næstu tvö tímabil.

Indriði er að ljúka sínu 16. keppnistímabili í atvinnumennsku, sem fyrirliði Viking í norsku úrvalsdeildinni. Honum bauðst að vera áfram úti en kaus að koma heim, og aðeins uppeldisfélagið kom til greina:

„Ég tilkynnti Viking það í janúar að ég ætlaði heim, og sé ekki eftir því þó að þetta tímabil hafi að mörgu leyti verið okkar besta í langan tíma,“ sagði Indriði. „Ég hef alltaf sagt það að ef ég myndi spila aftur á Íslandi yrði það með KR. Ég er fæddur inn í KR, alinn upp á KR-vellinum, giftur inn í KR-fjölskyldu... mér hefði verið hent út alls staðar ef ég hefði ekki gert þetta,“ sagði Indriði léttur, en faðir hans er Sigurður Indriðason sem lék lengi með KR á sínum tíma. Eiginkona Indriða er Jóhanna Sigmundsdóttir.

Ekki hefur öllum sem snúa heim úr atvinnumennsku gengið vel að pluma sig í Pepsideildinni: „Ég er ótrúlega meðvitaður um það, og veit að það verður drulluerfitt að koma heim. Hér eru duglegir strákar sem æfa mikið, maður þarf að vinna með fótboltanum, og svona,“ sagði Indriði, og tók undir að væntingarnar væru líka meiri: „Jú, allar feilsendingar verða tvöfaldaðar og þetta er bara það sem fylgir þessu. Ég er 100 prósent klár og ætla að enda ferilinn hjá KR á almennilegan hátt, helst með titli.“

Indriði er 33 ára gamall miðvörður. Hann á að baki 65 A-landsleiki. Hann fór til Lilleström haustið 1999, sem tvöfaldur meistari með KR, og hefur einnig leikið með Genk í Belgíu, Lyn í Noregi og loks Viking síðan 2009. sindris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert