Á bogahestinn eftir 20 ára hlé

Jóhannes Níels Sigurðsson við bogahestinn sem hann keppir á á …
Jóhannes Níels Sigurðsson við bogahestinn sem hann keppir á á morgun. mbl.is/Sindri

Hinn 46 ára gamli Jóhannes Níels Sigurðsson verður meðal keppenda á bikarmótinu í áhaldafimleikum á morgun. Hann keppir þar í fyrsta sinn í 20 ár.

Keppni karla stendur yfir frá 17.50 til 20.30 en keppt er í húsakynnum Bjarkar í Hafnarfirði. 

„Þetta leggst bara mjög vel í mig. Bogahesturinn var alltaf sterkasta grein mín, þó að hún sé talin einna erfiðust. Þetta er bara smááskorun,“ sagði Jóhannes Níels við mbl.is í dag, en hann mun keppa fyrir hönd Bjarkar þar sem hann er þjálfari. Jóhannes Níels mun keppa á bogahesti en fyrirkomulagið á bikarmótinu er þannig að hvert lið samanstendur af 5 keppendum, 4 keppa á hverju áhaldi og 3 bestu einkunnir á hverju áhaldi gilda.

„Ég er mestmegnis að þjálfa en það hefur blundað í mér að spreyta mig á einhverju móti. Ég held að það séu fleiri að hugsa það sama og vonandi verðum við með öldungalið á bikarmótinu að ári liðnu. Við höfum oft rætt það. Strákana hérna í Björk vantaði mann á bogahestinn og spurðu hvort ég væri til. Ég sagði nú fyrst í gríni bara já, já. Svo gat ég ekkert bakkað út úr því,“ sagði Jóhannes Níels léttur. Undanfarið hefur hann lagt mikið á sig til að geta keppt:

Kominn yfir sársaukaþröskuldinn

„Síðustu þrjár vikur hef ég verið að æfa á bogahestinum og ég hef verið í ágætisformi. Það er aðallega jafnvægið sem er erfitt. Ég er kominn yfir sársaukaþröskuldinn, en þetta var talsvert álag á úlnliði og hendur til að byrja með. Þetta er vonandi að smella saman en það kemur í ljós á morgun.“

Mótið í ár er aðeins annað bikarmótið þar sem Björk sendir karlalið til keppni: „Það er mikill uppgangur hjá strákunum í Björk. Þetta er ungt lið og vonandi koma fleiri upp á næsta ári,“ sagði Jóhannes Níels, sem sjálfur fagnaði fjölda Íslands- og bikarmeistaratitla á sínum ferli, en hann varð í þrígang bikarmeistari með Ármanni árin 1990, 1993 og 1994.

„Þegar ég var að byrja þá var þetta nú ekki stór grein á Íslandi, alla vega hjá strákunum, en svo hefur þetta aukist mikið. Þetta er mjög stór íþróttagrein í dag og það er skemmtilegt að sjá þróunina. Aðstaðan hefur batnað mikið, iðkendafjöldinn er mun meiri og þjálfarar sífellt að bæta við sig menntun. Það er metnaður hjá fimleikasambandinu í þessum efnum,“ sagði Jóhannes Níels.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert