Sigursælust en aldrei viljað bikarinn svona mikið

Tinna Óðinsdóttir verður ein þeirra sem sýna fimi sína í …
Tinna Óðinsdóttir verður ein þeirra sem sýna fimi sína í húsakynnum Bjarkar í Hafnarfirði á morgun, laugardag, frá kl. 14 til 16. mbl.is/Eva Björk

„Mig hefur aldrei langað svona mikið til að vinna þennan bikar. Ég er svo þakklát fyrir þetta félag,“ sagði Tinna Óðinsdóttir úr Björk sem stefnir á sigur á bikarmótinu í áhaldafimleikum á morgun, á heimavelli í Hafnarfirði.

Tinna er sennilega sigursælasti keppandi mótsins af þeim sem nú taka þátt en hún mun hafa orðið bikarmeistari í frjálsum æfingum 6 ár í röð með Gerplu. Fyrir ári skipti hún hins vegar yfir til Bjarkar, sem hefur ekki orðið bikarmeistari síðan árið 1999:

„Við erum sigurstranglegar núna, finnst mér. Við erum með mjög sterkt lið og sterka yngri keppendur, rosalega tilbúnar og liðsandinn er góður,“ sagði Tinna við mbl.is á fréttamannafundi í dag.

Þakklát hollenskum þjálfara sínum

Þó að Tinna keppi fyrir Björk hefur hún síðustu ár búið í Árósum í Danmörku og æft þar undir handleiðslu Hollendingsins Rene Poutsma.

„Ég er búin að búa þar í þrjú ár og fékk nýjan þjálfara fyrir tveimur árum. Hann hefur reynst mér ótrúlega vel og er eiginlega ástæðan fyrir því að ég er enn þá að keppa í dag. Hann kenndi mér að ég er að gera þetta fyrir sjálfa mig og engan annan og við náum ótrúlega vel saman. Hann er bara snillingur. Ég lærði það að þó að ég sé „komin á aldur“, eins og við segjum í fimleikum, þá get ég enn þá bætt mig, sem ég hef gert. Ég hef breyst talsvert sem fimleikakona og hef mikið meira gaman af þessu en áður, þó að þetta hafi aldrei verið leiðinlegt. Ég elska þetta alveg núna,“ sagði Tinna, en taka má fram að hún er aðeins 22 ára gömul.

Tinna er ein af íslensku landsliðskonunum sem urðu Norðurlandameistarar í fyrra, en þær eru í Ármanni, Gerplu og Björk. Þær hafa vanist því að skiptast á að vera keppinautar og liðsfélagar:

„Við erum eiginlega allar bestu vinkonur þannig að þetta eina mót breytir því ekkert, þó að það komi einhver pínulítill rígur rétt á meðan á mótinu stendur. Svo er bara landsliðsverkefni næst á dagskrá og þá erum við allar í sama liðinu,“ sagði Tinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert