Íslendingur á alþjóðlegri hjólamótaröð

Anton Örn Elfarsson er hér í miðjum hópnum í Gullhringnum …
Anton Örn Elfarsson er hér í miðjum hópnum í Gullhringnum í fyrra. Með honum á myndinni eru Hafsteinn Ægir Geirsson(t.v.) og Rúnar Karl Elfarsson (t.h.) Mynd/Arnold Björnsson

Götuhjólreiðamaðurinn Anton Örn Elfarsson keppir þessa stundina á alþjóðlega hjólamóti í Danmörku, en um er að ræða þrjá aðskyldar keppnir frá föstudegi til sunnudags þar sem hjólað er um 200 kílómetra dagleiðir. Mótin eru hluti af UCI mótaröð sem veitir stig á alþjóðagrundvelli.

Mótið í dag hófst klukkan 10 og lýkur væntanlega um þrjú síðdegis. Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu frá því á TV Midvest í dag og næstu daga.

Anton hefur undanfarin fimm ár búið í Danmörku og æft hjólreiðar allan tímann. Rúnar Karl Elfarsson, bróðir Antons, segir í samtali við mbl.is að Anton hafi byrjað að keppa fyrir alvöru fyrir um fjórum árum í C-flokki, en í Danmörku er keppt í fjórum mismunandi flokkum eftir getu. Er A-flokkur efsti flokkurinn og D-flokkur sá sem er fyrir byrjendur.

Keppir með glænýju liði

Anton hefur á þessum tíma unnið sig upp um flokka og komst í A-flokk fyrr á þessu ári. Hann er í Amager cykle ring hjólaklúbbinum, en sá klúbbur stofnaði nýtt sameiginlegt lið í A-flokki með liði frá Fredriksberg í ár og er því með alveg glænýtt lið sem heitir ACR-FBL Elite. Rúnar segir að þar sem liðið sé nýtt horfi þeir á að byggja það upp á komandi misserum og að nú sé horft til þess að sækja stærri styrktaraðila fyrir liðið. Þegar komið sé upp í A-flokk sé um að ræða nokkuð hátt skrifaðar keppnir og umgjörðin í takt við það. Hann segir Anton þó ekki atvinnumann í greininni.

Í mótunum um helgina keppa 30 lið sem koma frá Norðurlöndunum, Þýskalandi og Hollandi. Líkt og í stærri hjólreiðakeppnum þarf hverju liði að fylgja allskonar búnaður og bíll sem ekur á eftir hjólreiðamönnunum.

Íslendingar hafa hingað til ekki verið mjög sýnilegir í A-flokksmótum erlendis, en það gæti nú verið að breytast.  Rúnar Karl nefnir þó að fyrir nokkrum áratugum hafi Pálmar Kristmundsson, sem einnig var búsettur í Danmörku, nokkrum sinnum verið boðið að keppa í A-flokki. Þá er líka rétta að minnast á Ingvar Ómarsson sem hefur keppt erlendis, þó hann sé þó mest í fjallahjólreiðum.

Æfir 15-20 klukkustundir á viku

Samhliða hjólreiðunum er Anton í fullri vinnu, en Rúnar Karl segir að hann æfi í um 15-20 klukkustundir á viku. Hann er á Trek Emonda SLR hjóli. Keppnirnar sem nú fara fram eru sem fyrr segir um 200 kílómetrar á hverjum degi, en meðalhraði hjólara er allt að 43 km/klst og tekur keppnin hvern dag um 5 tíma. Til samanburðar eru flestar stærri keppnir á Íslandi um 100 kílómetrar og er meðalhraði þar oft rétt tæplega 40 km/klst.

Anton hefur reglulega komið hingað til lands til að keppa og síðasta sumar var hann til dæmis í öðru sæti í Gullhringnum og í fjórða sæti í Tour of Reykjavík, en þar voru tveir Danir í efstu sætunum.

Fyrir áhugasama er hægt að sjá lista yfir keppendur og lið í mótinu hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert