Sigursælust í sögunni

Hrafnhildur Lúthersdóttir.
Hrafnhildur Lúthersdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hrafnhildur Lúthersdóttir, sundkona úr SH, er orðin sigursælasti Íslendingur í sögu Smáþjóðaleikanna, frá því að leikarnir voru fyrst haldnir árið 1985. Leikarnir sem nú standa yfir í San Marínó eru þeir sautjándu, og í gær bætti Hrafnhildur sínum 19. gullverðlaunum í einstaklingsgreinum í safnið. Hrafnhildur vann þá 400 metra fjórsund en hún synti á 4:55,05 mínútum og var rúmum fimm sekúndum á undan næsta keppanda.

Hrafnhildur hafði unnið til 15 gullverðlauna í einstaklingsgreinum á Smáþjóðaleikum fyrir mótið í ár, en hefur nú bætt fernum við. Þar með tók hún fram úr sundkappanum Erni Arnarsyni sem var áður sigursælastur Íslendinga með 18 gullverðlaun.

Hrafnhildur keppti fyrst á Smáþjóðaleikum fyrir tíu árum, og vann þá í 100 og 200 metra bringusundi, sínum aðalgreinum. Hún hefur alltaf náð að verja þá titla, alls fimm sinnum. Hún synti 200 metra fjórsund í fyrsta sinn árið 2009 og hefur alltaf unnið þá grein.

Auk 19 gullverðlauna í einstaklingsgreinum hefur Hrafnhildur unnið til fjölda verðlauna í boðsundum, til að mynda í gær. Hún var í 4x100 metra skriðsundssveit Íslands sem vann í gær á 3:49,24 mínútum, um sex sekúndum á undan næstu sveitum. Auk Hrafnhildar skipuðu sveitina þær Bryndís Bolladóttir, Eygló Ósk Gústafsdóttir og Bryndís Rún Hansen.

Tólf gullverðlaun í sundi í ár

Ísland vann til 12 gullverðlauna í sundi á leikunum í San Marínó, 4 silfurverðlauna og 8 bronsverðlauna. Aðeins Lúxemborg gerði betur hvað heildarfjölda verðlauna snertir, en vann þó jafnmargar greinar. sindris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert