Erum svekktir en líka stoltir

Kári Jónsson, með boltann.
Kári Jónsson, með boltann. mbl.is/Árni Sæberg

„Menn eru frekar svekktir yfir tapinu en líka stoltir að hafa komist í átta liða úrslit,“ sagði Kári Jónsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, í samtali við Morgunblaðið eftir að U20 ára landslið karla náði ekki að tryggja sér sæti í undanúrslitum á Evrópumóti U20 ára landsliða á Krít. Strákarnir töpuðu fyrir Ísrael í átta liða úrslitum mótsins í gær, 74:54, og mæta Serbíu á morgun í baráttunni um 5.-8. sætið.

„Við spiluðum alls ekki okkar besta leik og eigum á góðum degi að eiga fullt í þetta Ísraelslið, en það gekk ekki núna. Vörnin var góð á köflum en okkur gekk illa að skora í sókninni og þeim leið alltaf vel á móti okkur. Það vantaði því svolítið upp á,“ sagði Kári, en stigahæstur var Tryggvi Snær Hlinason með 12 stig og 14 fráköst og þeir Kristinn Pálsson og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson skoruðu 10 stig.

Aðspurður hvort magnaður sigur á Svíum deginum áður sem tryggði farseðilinn í átta liða úrslit hafi enn verið í huga strákanna sagði Kári að það gæti hafa haft áhrif gegn Ísrael.

„Að sjálfsögðu spilar það inn í líka, það er oft erfitt að koma sér niður á jörðina eftir svona stóran leik og góðan árangur. Það vantaði aðeins upp á stemninguna í liðinu núna, fannst mér,“ sagði Kári.

Sjá viðtalið í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert