Baðst afsökunar á að hafa gefið Tiger „F“

Tiger Woods er efsti maður heimslistans í golfi.
Tiger Woods er efsti maður heimslistans í golfi. AFP

Sjónvarpslýsandinn Brandel Chamblee olli miklu fjaðrafoki í golf-heiminum þegar hann gaf Tiger Woods, efsta kylfingi heimslistans, „F“ í einkunn fyrir frammistöðu sína á tímabilinu.

Þó að Tiger hafi unnið fimm mót á árinu fannst Chamblee að kappinn verðskuldaði lægstu einkunn vegna þess hve kærulaus hann hefði verið gagnvart reglum íþróttarinnar. Á Masters-mótinu fékk hann til að mynda tveggja högga víti fyrir brot á reglum um hvar beri að láta boltann falla, eftir að hann hafði slegið honum út í vatn. Margir töldu að vísa ætti Tiger úr keppni þar sem hann viðurkenndi í viðtali að hafa vísvitandi sleppt boltanum tveimur metrum frá upphaflega staðnum.

Chamblee líkti framgöngu Tigers við það þegar hann sjálfur svindlaði á stærðfræðiprófi í grunnskóla. Nú hefur hann beðist afsökunar á ummælum sínum.

„Ég sé að ummæli mín hafa kynt undir deilum á milli tveggja hópa. Golf er herramannaíþrótt og ég er ekki stoltur af þessari umræðu. Ég vil biðja Tiger afsökunar á að hafa kynt undir henni,“ sagði Chamblee á Twitter.

„Ég vildi bara undirstrika að Tiger hefði farið á svig við reglurnar á þessu ári, en það var of langt gengið að líkja því við svindl á skólaprófi,“ sagði Chamblee.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert