Axel: Þarf annan svona hring

Axel Bóasson úr GK lék manna best á þriðja degi Íslandsmótsins í golfi á Leirdalsvelli í dag, en hann lék á 64 höggum, sjö undir pari, og jafnaði vallarmetið sem Birgir Leifur Hafþórsson á. Birgir Leifur er í forystu fyrir lokadaginn og á sjö högg á Axel og Þórð Rafn Gissurarson úr GR.

„Ég er ekki alveg búinn að vera að hitta flatirnar en ég náði því betur í dag. Það er allt annar leikur þegar það tekst, að þurfa ekki að vippa upp að stönginni,“ sagði Axel í samtali við mbl.is eftir hringinn, en hann fékk átta fugla og einn skolla, á síðustu holunni eftir að hafa farið í smá skógarferð.

Hann segir mótið hvergi nærri búið þó Birgir Leifur sé í góðri stöðu. „Það er langt í land, ég þarf annan svona hring. En þetta er ekkert búið og alls ekki ómögulegt. Ég er spenntur að sjá hvernig þetta verður á morgun,“ sagði Axel, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert