Jólin verða gleðileg

Valdís Þóra Jónsdóttir á lokahringnum á síðasta úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina.
Valdís Þóra Jónsdóttir á lokahringnum á síðasta úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina. Ljósmynd/LET/Tristan Jones

„Jú vissulega er ég mjög glöð en ég held mér alveg niðri á jörðinni. Takmarkinu er náð og jólin verða gleðileg hjá mér í ár,“ sagði Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Leyni á Akranesi, við Morgunblaðið skömmu eftir að hafa tryggt sér þátttökurétt í LET-Evrópumótaröðinni í golfi, sterkustu mótaröð í Evrópu. Skagamærin lék frábært golf á lokaúrtökumótinu sem lauk í Marokkó í gær en hún endaði í öðru sæti á samtals 15 höggum undir pari.

„Ég sló boltann mjög vel og síðustu tvo dagana fóru púttin að detta niður hjá mér. Ég ákvað að halda mig við leikplanið og sömu rútínu og sækja enn þá meira. Ég vissi ekki í hvaða sæti ég lenti fyrr en ég var búin að skila inn skortkortinu. Ég var svo sem ekkert að spá í það en vissulega var gaman að enda svona ofarlega. Ef ég á vera hreinskilin þá hef ég ekki hugmynd um hvort ég fái eitthvert verðlaunafé. Það mun þá bara birtast á bankareikningum ef svo verður. Ég er búin að spila sjö hringi á átta dögum og þar á undan spilaði ég fimm hringi á sex dögum svo þetta er búin að vera mikil keyrsla en það kom mér á óvart hversu lítið þreytt ég var á hringjunum. Nú er ég í spennufalli og get varla hætt að geispa,“ sagði Valdís Þóra en þetta er í fjórða sinn sem hún tekur þátt í úrtökumótunum.

Þetta er aðeins brot úr viðtali við Valdísi Þóru sem sjá má í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert