Níu af tíu bestu í heimi meðal mótherja Ólafíu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur tekið þátt á tveimur mótum á …
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur tekið þátt á tveimur mótum á LPGA. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, mun á morgun hefja leik á ný á LPGA-mótaröðinni í golfi eftir nokkurra vikna hlé. Ólafía keppir í Phoenix í Arizona-ríki en þar fer fram firnasterkt mót sem kallast Founders Cup. Mótið verður hið fyrsta hjá Ólafíu á bandarískri grundu á mótaröðinni en fyrstu tvö mótin sem hún keppti á fóru fram á Bahamaeyjum og í Ástralíu.

Golfsvæðið þar sem keppt verður ber nokkuð langt nafn: JW Marriott Phoenix Desert Ridge Resort & Spa en golfklúbburinn sem heldur þar til kallast Wildfire Golf Club. Völlurinn gæti verið í auðveldari kantinum fyrir bestu kylfinga heims ef horft er á skorið á mótinu í fyrra. Í það minnsta lék Sei Young Kim frá Suður-Kóreu á tuttugu og sjö höggum undir pari í fyrra. Jafnaði hún þá met yfir besta skor miðað við par á 72 holum á mótaröðinni sem sænska stórstjarnan Annika Sörenstam setti árið 2001.

Gætti breytt stöðunni á heimslistanum næstu vikur

Heildarverðlaunafé í mótinu er liðlega 165 milljónir íslenskra króna og eru níu af tíu efstu kylfingum heimslistans mættar til þess að berjast um fjármagnið sem í boði er.

Ólafía hefur komist í gegnum niðurskurð keppenda á fyrstu tveimur mótum sínum sem lofar góðu fyrir hana. Hún hafnaði í 69. sæti á Bahamaeyjum og í 30. sæti í Ástralíu. Er hún í 498. sæti á heimslistanum en hún mun væntanlega keppa í 4-5 mótum í Bandaríkjunum næstu 5-6 vikurnar og því gefst henni tækifæri til að breyta þeirri stöðu verulega ef vel gengur.

Nánar er fjallað um framhaldið hjá Ólafíu í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert