Haukar áfram á toppnum eftir sigur á Stjörnunni

Stefán B. Stefánsson, hornamaður Fram, sækir að Hilmari Stefánssyni, fyrirliða …
Stefán B. Stefánsson, hornamaður Fram, sækir að Hilmari Stefánssyni, fyrirliða Aftureldingar í leiknum að Varmá í kvöld. Kristinn Ingvarsson

Haukar lögðu Stjörnuna 28:25 þegar liðin mættust í Mýrinni í N1 deild karla í handknattleik í kvöld. Þá lagði Fram lið Aftureldingar í Mosfellsbænum, 25:23 eftir að hafa verið 15:10 yfir í leikhléi.

Stjarnan var marki yfir, 12:11, í leikhléi en náði ekki að halda því. Haukar eru sem fyrr í efsta sæti deildarinnar með 19 stig en HK og Fram eru með 15 stig en Haukar hafa leikið 12 leiki, Fram 11 og HK tíu þannig að baráttan er jöfn og spennandi.

Ólafur Víðir Ólafsson gerði 8 mörk fyrir Stjörnuna og Björgvin Hólmgeirsson sex en hjá Haukum voru þrír með fimm mörk hver, Jón Karl Björnsson, Andri Stefan og Kári Kristjánsson.

Afturelding náði að jafna metin gegn Fram, 21:21, og úr varð spennandi lokakafli þar sem gestirnir höfðu betur og tylltu sér að hlið HK.

Hjá Aftureldingu átti Davíð Svansson stórleik og varði 25 skot, 13 í fyrri hálfleik og 12 í þeim síðari. Hilmar Stefánsson og Hrafn Ingvarsson skoruðu 5 mörk hvor fyrir Aftureldingu. Hjörtur Hinriksson skoraði sex mök fyrir Fram og var markahæstur en næstir komu Halldór Jóhann Sigfússon með 5 mörk og Rúnar Kárason með fjögur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert