Ísland í forkeppni Ólympíuleikanna og Króatía áfram

Petar Metlicic, Króatíu, stöðvar Norðmanninn Frode Hagen í leiknum í …
Petar Metlicic, Króatíu, stöðvar Norðmanninn Frode Hagen í leiknum í kvöld. Reuters

Króatar tryggðu í kvöld Íslandi sæti í forkeppni Ólympíuleikanna í vor þegar þeir gerðu jafntefli, 23:23, við Norðmenn í lokaleik milliriðlanna á EM í Noregi. Króatar komust með þessu í undanúrslit og mæta þar Frökkum en Danir og Þjóðverjar mætast í hinum undanúrslitaleiknum.

Þar sem öll þau fjögur lið sem eftir eru í keppninni voru búin að tryggja sér sæti í forkeppni Ólympíuleikanna, er ljóst að eitt þeirra fer beint þangað, annað hvort sem Evrópumeistari, eða silfurlið á eftir Þjóðverjum.

Þetta þýðir að Ísland færist upp um eitt sæti, eftir að hafa lent í 8. sætinu á HM í Þýskalandi í fyrra og er ein þeirra sex Evrópuþjóða sem fara beint í hana vegna árangurs á HM.

Leikur Króata og Norðmanna var í járnum allan tímann, enda hreinn úrslitaleikur um sæti í undanúrslitum. Norðmenn voru yfir í hálfleik, 11:10, en Króatar náðu undirtökum um miðjan síðari hálfleik og komust í 22:20 fimm mínútum fyrir leikslok. Norðmenn jöfnuðu, 22:22 og svo aftur 23:23 þegar 6 sekúndur voru eftir, en það var ekki nóg.

Ivano Balic átti stórleik fyrir Króata og skoraði 9 mörk en Blazenko Lackovic gerði 5. Hjá Norðmönnum voru Frode Hagen, Kjetil Strand og Rune Skjærvold með 5 mörk hver.

Leikskýrslan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert