Bæði lið berjast til sigurs í bikarnum

Þorgerður Atladóttir, Stjörnunni, verður að öllum líkindum frá vegna meiðsla …
Þorgerður Atladóttir, Stjörnunni, verður að öllum líkindum frá vegna meiðsla á laugardaginn. Er það skarð fyrir skildi hjá liðinu, enda einn þeirra besti leikmaður. Morgunblaðið/Ómar

Nú í hádeginu var blásið til blaðamannafundar fyrir úrslitaleikina í Eimskipsbikarnum í handbolta um helgina. Þar mætast lið Stjörnunnar og FH í kvennaflokki, en Stjarnan er núverandi bikarmeistari.

„Stjarnan er að mínu viti með besta kvennaliðið á landinu í dag. En líkt og við í FH, þá hafa þær misst svolítið dampinn í deildinni undanfarið og toppsætið því Hauka í bili. Þær hafa mikla sigurhefð, eru vanar að vinna titla, meðan FH vann síðast bikarinn árið 1981. En á móti kemur, að stelpurnar hafa mikið hungur. Hungur í sigur. Og FH er félag á uppleið. Umgjörðin, stemmingin og árangurinn ber það greinilega með sér. Og það er alltaf bónus að komast í svona stóran leik. En við munum gera allt til þess að sigra,“ sagði Guðmundur Karlsson, þjálfari kvennaliðs FH.

Atli Hilmarsson, þjálfari Stjörnunnar, núverandi bikarmeistara, segir tíma kominn til að liðið uppskeri, eftir að hafa farið erfiðu leiðina í úrslitaleikinn.

„Já, við unnum Val og Hauka á útivöllum liðið hefur spilað frábærlega í þessum erfiðu leikjum. Mér líst vel á þennan slag og finnst gaman að taka þátt í þessu sem þjálfari. Það eru sex leikmenn í liðinu sem spiluðu úrslitaleikinn í fyrra og þær vita því út á hvað þetta gengur. Nú þurfa þær að miðla þessari reynslu til hinna leikmannanna og klára dæmið," sagði Atli.

Leikurinn hefst klukkan 13.30 á laugardaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert