Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik tekur á móti Bretum í Laugardalshöll klukkan 14 á morgun í undankeppni EM. Leikurinn er mjög mikilvægur fyrir íslenska liðið sem á góða möguleika að komast í lokakeppnina í fyrsta skipti.
Ísland vann Bretland örugglega í London síðstliðið miðvikudagskvöld en breska liðið var þó sterkara en búist var við. Bretar undirbúa sig nú fyrir Ólympíuleikana í London árið 2012.
Er þetta fyrsti heimaleikur Íslands síðan í október þegar liðið vann mikilvægan sigur á Austurríki en íslensku konurnar eiga þrjá leiki eftir í keppninni. Takist liðinu að vinna Breta þá dugir liðinu stig í síðustu tveimur leikjunum sem fram fara í lok maí.
Tvö efstu liðin í riðlinum komast í lokakeppnina sem haldin verður í Danmörku og Noregi í desember. Frakkland er svo gott sem öruggt áfram en Frakkar koma hingað í lok maí og nokkrum dögum síðar leikur Ísland gegn Austurríki ytra. Stig tryggir Íslandi áframhaldandi þáttöku en einnig dugir liðinu aðeins að tapa með minna en fjögurra marka mun í Austurríki.
Rut Jónsdótti er orðin leikfær en hún fékk skurð fyrir ofan vörina í leiknum ytra og kom af þeim sökum lítið við sögu í leiknum. Aðrir leikmenn íslenska liðsins eru einnig tilbúnir í slaginn.