Fær Þórir aukna samkeppni?

Ivan Cupic fagnar marki í leik Króata og Frakka á …
Ivan Cupic fagnar marki í leik Króata og Frakka á EM í janúar. Reuters

Þórir Ólafsson, landsliðsmaður í handknattleik gæti fengið aukna samkeppni hjá pólska liðinu Vive Kielce á næstu leiktíð því króatíski handknattleiksmaðurinn Ivan Cupic er sterklega orðaður við liðið um þessar mundir.

Samningur Cupic við Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi rennur út um mitt þetta ár. Ósennilegt er talið að hann verði áfram hjá liðinu. Pólskir fjölmiðar greindu frá því í gær að forráðamenn Kielce og hafi rætt við Cupic um þriggja ára samning.

Cupic, sem er 26 ára gamall, leikur í hægra horninu eins og Þórir sem þegar deilir hægri horna stöðunni með pólskum handknattleiksmanni.

Þórir gekk til liðs við Kielce á síðasta sumri og skrifaði þá undir tveggja ára samning. Hann hefur leikið vel með liðinu í vetur og einn markahæsti leikmaður liðsins.

Kielce varð deildarmeistari í Póllandi á dögunum. Liðið er komið í undanúrslit í úrslitakeppninni um pólska meistaratitilinn og er auk þess í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Kielce hefur á undanförnum árum sópað til sín pólskum landsliðsmönnum en einnig nokkrum sterkum leikmönnum frá ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu.

Fyrir skemmstu skrifuðu pólsku landsliðsmennirnir Krzysztof Lijewski og Karol Bielecki undir samning við liðið. Blaðir eru þeir um þessar mundir samherjar Cupic hjá Rhein-Neckar Löwen. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert