Valskonur meistarar þriðja árið í röð

Valur og Fram áttust við í oddaleik um Íslandsmeistaratitil kvenna í handknattleik í Vodafone-höllinni á Hlíðarenda í dag. Valur sigraði 24:21 og er Íslandsmeistari þriðja árið í röð eftir 3:2-sigur í úrslitarimmunni. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. 

Atkvæðamestar: 

Valur: Hrafnhildur Skúladóttir 8/1, Þorgerður Anna Atladóttir 6. Karólína Bæhrenz Lárudóttir 5. Guðný Jenný Ásmundsdóttir 12/2 varin skot. 

Fram: Stella Sigurðardóttir 6, Elísabet Gunnarsdóttir 6/3. Guðrún Ósk Maríasdóttir 11 varin skot. 

60. mín: Leiknum er lokið með sigri Vals 24:21. Valur er Íslandsmeistari eftir 3:2 sigur í úrslitarimmunni. 

55. mín: Staðan er 22:17 fyrir Val. Nú þurfa Framarar á kraftaverki á halda ef titillinn á að fara í Safamýrina. 

50. mín: Staðan er 20:15 fyrir Val. Bikarinn virðist ekki vera á förum frá Hlíðarenda þar sem hann hefur verið í tvö ár. 

46. mín: Staðan er 18:14 fyrir Val. Þorgerður Anna Atladóttir er búin að skora tvö mörk með skömmu millibili og nú virðist gæfan brosa við Valskonum. Það gæti orðið erfitt fyrir Fram að vinna upp þennan mun. Þó ekki sé um nema fjögur mörk að ræða þá hefur Fram bara ekki fengið nein hraðaupphlaup í leiknum. 

42. mín: Staðan er 14:12 fyrir Val. Framarar eru ekki dauðir úr öllum æðum og eru með boltann og geta minnkað muninn niður í eitt mark. 

35. mín: Staðan er 13:10 fyrir Val. Karólína Bæhrenz Lárusdóttir var að skora fyrir Val úr hraðaupphlaupi. Hennar þriðja mark í leiknum. Stella er búin að skora tvö í upphafi síðari hálfleiks og það boðar gott fyrir Fram. 1.811 áhorfendur eru mættir og það geri ég ráð fyrir að sé met í Valsheimilinu. 

30. mín: Staðan er 11:8 fyrir Val að loknum fyrri hálfleik. Valur náði frumkvæðinu þegar á leið hálfleikinn. Reynsluboltinn Hrafnhildur Skúladóttir hefur farið fyrir liðinu í sókninni og er óhrædd við að taka af skarið. Hefur það skilað Val 5 mörkum. Stella Sigurðardóttir er með rólegasta móti og hefur aðeins skorað 1 mark. 

23. mín: Staðan er 9:6 fyrir Val. Guðný Jenný Ásmundsdóttir var að verja vítakast og vörn Vals er sterk. Eru meistararnir að slíta sig frá Framliðinu?

17. mín: Staðan er 5:5 og útlit fyrir hörkuleik. Fram komst í 3:1 og 5:3 en Val tókst að svara fyrir sig í báðum tilfellum. Ágústa Edda Björnsdóttir er nú þegar búin að fá tvær brottvísanir hjá Val og þarf að gæta sín. Bæði brotin voru gróf og dómararnir Arnar og Svavar gátu ekkert annað gert en að reka hana út af. 

10. mín: Staðan er 3:1 fyrir Fram. Baráttan er gríðarleg á upphafsmínútunum og mikil stemning í húsinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert