Sjö marka sigur og Ísland á toppinn

Guðjón Valur Sigurðsson lék stórt hlutverk að vanda í íslenska …
Guðjón Valur Sigurðsson lék stórt hlutverk að vanda í íslenska landsliðinu gegn Hvít-Rússum á miðvikudagskvöldið. Hann verður í eldlínunni með liðinu í Rúmeníu í dag. Ómar Óskarsson

Íslenska landsliðið í handknattleik vann það rúmenska, 37:30, í Piatra Neamt í leik þjóðanna í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik karla í dag og er það komið á topp sjötta riðils með fjögur stig.

Ísland var marki yfir í hálfleik, 19:18.

Eftir jafnan fyrri hálfleik náði íslenska landsliðið fljótlega frumkvæði í síðari hálfleik en gekk illa að hrista Rúmenana af sér. Það gerðist hinsvegar þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka. Þá skildi leiðir og íslenska liðið réð lögum og lofum.

Varnarleikur íslenska landsliðsins var slakur í fyrri hálfleik en var mun betri í þeim síðari þegar rúmenska liðið skoraði aðeins 12 mörk. Aron Rafn Eðvarðsson stóð í íslenska markinu allan leikinn og varði 21 skot, tíu í fyrri hálfleik og ellefu í þeim síðari. Nokkuð bar á mistökum í sóknarleik Íslands í fyrri hálfleik en mun minna var um þau í þeim síðari.

Kári Kristján Kristjánsson kom inn á línu þegar rúmar 10 mínútur voru eftir. Hann kom miklu róti á rúmensku vörnina, einmitt á þeim tímapunkti þegar rúmenska liðið var að gefa eftir.

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur með 11 mörk, þar af skoraði hann úr þremur vítaköstum. Ásgeir Örn Hallgrímsson kom næstur með 8 mörk.  Aron Pálmarsson skoraði fimm mörk eftir að hafa verið seinn í gang. Snorri Steinn Guðjónsson var með fjögur mörk. Kári Kristján og Þórir Ólafsson skoruðu þrjú mörk hvor. Alexander Petersson tvö og Ingimundur Ingimundarson eitt.

Þetta er fyrsti sigur Íslendinga á Rúmeníu í handknattleik karla á rúmenskri grund.

Eftir þennan sigur og jafntefli Hvít-Rússa og Slóvena í Minsk í dag, 32:32, er íslenska liðið eitt á toppi riðilsins eftir tvær umferðir með fjögur stig, Slóvenar hafa þrjú, Hvít-Rússar eitt en Rúmenar reka lestina án stiga. Næstu leikir í undankeppninni verða í byrjun mars, þá mætast Íslendingar og Slóvenar í tvígang með nokkurra daga millibili.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Rúmenía 30:37 Ísland opna loka
60. mín. Leik lokið
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert