Tel okkur vera á pari

Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram.
Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta lítur bara ágætlega út hjá okkur Frömurum. Við erum áfram með okkar þróun og uppbyggingu,“ segir Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram, við mbl.is um tímabilið sem framundan er í Olís-deildinni.

Framarar, sem hömpuðu Íslandsmeistaratitlinum vorið 2013 en höfnuðu í 5. sæti í deildinni á síðustu leiktíð, hefja tímabilið í Olís-deildinni með leik á móti bikarmeisturum Hauka í Safamýrinni á fimmtudaginn.

„Ég hef verið áægður með undirbúning okkar fyrir mótið. Maður vill ekki vera á undirbúningstímabili þar sem allt gengur upp. Þú þarf að vinna með hlutina. Við fórum í æfingaferð til Granollers á Spáni sem heppnaðist mjög vel og gaf okkur mikið og ég er ekki í vafa um að þessi ferð mun koma liðinu og leikmönnum til góða í vetur. Við höldum flestu leikmönnum frá síðustu leiktíð en við höfum misst þrjá elstu leikmennina,“ segir Guðlaugur en umræddir leikmenn eru Stephen Nielsen markvörður, Sveinn Þorgeirsson og Sigfús Páll Sigfússon.

„Ég myndi telja að við séum á betri stað núna en á sama tíma og í fyrra. Fyrir síðasta tímabilið misstum við marga sterka leikmenn og það var auðvitað erfitt. Liðið er ungt að árum og við erum enn að þroskast og liðið að þróast. Menn eru árinu eldri og við höfum fengið flotta stráka til okkar. Við fengum Kristófer Fannar Guðmundsson markvörð frá ÍR sem ég er mjög ánægður með, Óla Ægi Ólafsson frá Gróttu sem er ungur og efnilegur leikmaður sem komið vel inn í okkar lið og þá fengum við Þröst Bjarkason frá Þýskalandi,“ segir Guðlaugur, sem stýrir Fram-liðinu annað árið í röð.

„Mér finnst við vera nokkurn veginn á pari á þessum tímapunkti. Við höfum spilað vel og líka illa til að mynda í leiknum á móti ÍR í gær. Þar sá maður ákveðið reynsluleysi í okkar hóp. Á góðum degi og ef menn skila góðri frammistöðu þá sé ég alveg fyrir að við getum unnið öll liðin í deildinni. Strákarnir öðluðust góða reynslu í fyrra og vonandi geta þeir bætt sinn leik í vetur. Með breyttu mótafyrirkomulagi spilum við 27 leiki í deildinni og það mun reyna mikið á hópinn og þá breytt sem við erum alltaf að móta. Við erum með stráka sem eru á fyrsta ári í öðrum flokki sem koma til með koma inná af bekknum. Það má segja að lið okkar sé líka að yngjast en það mun bara styrkja okkur til lengri tíma. Það er uppbyggingarferli í gangi hjá okkur,“ segir Guðlaugur.

Spurður út hvaða liðum hann spáir í baráttunni um titilinn í ár segir Guðlaugur;

„Liðin sem líta best út eru Valur og Haukar og þar á eftir FH. Þessi lið eru best mönnuð og hafa sterkustu byrjunarliðin. Það hafa orðið talsverðar á breytingar á liðum eins og ÍBV, Akureyri, ÍR og okkar liði en eitthvað af þessum liðum getur orðið spútniklið deildarinnar. Markmið okkar Framara eru einföld. Við horfum bara til næstu æfingar og næsta leiks. Við horfum ekkert lengra fram en það en það er samt engin spurning að við mætum í hvaða leik sem er með það fyrir augum að vinna hann. Við viljum bæta okkar leik, leik fyrir leik og svo teljum við bara stigin í lokin,“ sagði Guðlaugur.

Ítar­lega um­fjöll­un um lið Fram og Akureyri má sjá í íþrótta­blaði Morg­un­blaðsins í dag. Morg­un­blaðið og mbl.is hita upp fyr­ir kom­andi tíma­bil í Olís-deild karla næstu daga.

Línumaðurinn Garðar Sigurjónsson var markahæstur í liði Framara á síðustu …
Línumaðurinn Garðar Sigurjónsson var markahæstur í liði Framara á síðustu leiktíð. mbl.is/Ómar
Makvörðurinn Kristófer Fannar Guðmundsson kom til Framara frá ÍR-ingum í …
Makvörðurinn Kristófer Fannar Guðmundsson kom til Framara frá ÍR-ingum í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Stefán Darri Þórsson verður væntanlega í stóru hlutverki hjá Frömurum …
Stefán Darri Þórsson verður væntanlega í stóru hlutverki hjá Frömurum í vetur. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert