Svarthvít helgi í Firðinum

Tjörvi Þorgeirsson fær óblíðar móttökur hjá varnarmönnum FH.
Tjörvi Þorgeirsson fær óblíðar móttökur hjá varnarmönnum FH. mbl.is/Golli

FH-ingar geta brosað breitt í Firðinum næstu dagana eftir sigur liðsins gegn erkifjendunum í Haukum, 25:24, þegar liðin áttust við í Olís-deildinni í handknattleik í Kaplakrika í gær.

Oftast hefur stemningin verið meiri í Hafnarfjarðarslagnum en stutt er síðan tímabilið hófst og margir eflaust ekki alveg komnir í handboltagírinn enda knattspyrnuvertíðin enn í gangi.

Eðlilega var nokkur haustbragur á leik liðanna en leikmenn beggja liða gerðu sig seka um klaufaleg mistök í sóknarleiknum og þar voru Haukar fremri en heimamenn. Ef ekki hefði komið til góð markvarsla Haukanna í fyrri hálfleik hefðu FH-ingar verið með meira en þriggja marka forskot þegar liðin gengu til búningsherbergja í leikhléinu. Haukarnir hressust til muna í seinni hálfleik og þeir voru búnir að jafna metin og komast yfir eftir 13 mínútna leik.

Eftir það var leikurinn jafn og spennandi en FH-ingar reyndust sterkari á lokametrunum og Ásbjörn Friðriksson sá til þess að tryggja þeim sigurinn þegar hann skoraði 25. markið skömmu fyrir leikslok en Árni Steinn átti síðasta orðið þegar hann minnkaði muninn með flautumarki.

Nánar um leiki gærkvöldsins í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert