Háspenna en kaflaskipt í grannaslagnum

Ragnar Jóhannsson er hér að skora fyrir FH-inga í leiknum …
Ragnar Jóhannsson er hér að skora fyrir FH-inga í leiknum í gær. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Það var sannkölluð háspenna á lokamínútunum í viðureign Hauka og FH í Olís-deildinni en liðin áttust við í Schenkerhöllinni að Ásvöllum.

Eftir mikinn darraðardans skiptu erkifjendurnir stigunum á milli sín en jafntefli varð niðurstaðan, 22:22. Árni Steinn Steinþórsson tryggði Haukunum stigið þegar hann jafnaði metin 20 sekúndum fyrir leikslok. FH-ingar freistuðu þess að skora sigurmarkið. Þeir fengu aukakast eftir að leiktíminn rann út en skot Ísaks Rafnssonar fór í varnarmúr Haukanna og Giedrius Morkunas, frábær markvörður Haukanna, náði að handsama boltann. Skömmu áður hafði Ísak átt skot í þverslána í stöðunni 22:21, FH-ingum í vil, en með marki þar hefði hann tryggt sínum mönnum sigurinn.

,,Ég er ánægður með stigið eftir allt sem á undan gekk og virði það. Við vorum hundlélegir í fyrri hálfleiknum en við tókum okkur saman í andlitinu í seinni hálfleiknum enda ekki annað hægt. Maður er svolítið svekktur yfir því að hafa ekki náð að vinna leikinn eftir allt saman en ég verð samt að vera ánægður með niðurstöðuna. Við sýndum góðan karakter í seinni hálfleiknum og náðum upp góðri baráttu í vörninni og það mátti engu muna að við tækjum bæði stigin,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, leikstjórnandi FH-inga, við Morgunblaðið eftir leikinn.

Sjá allt um leikina í Olís-deildinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert