Líður vel í Valsbúningnum

Stephen Nielsen, hinn danski markvörður Vals í handknattleik, átti enn einn stórleikinn í kvöld þegar liðið lagði Hauka, 33:26, í Olís-deildinni. Nielsen varði 23 skot, þar af 14 í fyrri hálfleik, og gaf sig á tal við mbl.is eftir leikinn. Hann hefur búið hér á landi í eitt og hálft ár en talaði nánast lýtalausa íslensku við blaðamann sem þurfti ekki að rifja upp menntaskóladönskuna.

„Það er það oft og er sagt í NFL í Bandaríkjunum, „good defence, good game,“ og það átti við hjá okkur í dag,“ sagði Nielsen og laug engu um það, en Valsmenn voru sjö mörkum yfir strax eftir fyrri hálfleikinn og náðu mest níu marka forystu.

„Við vissum hvað þeir geta en mér fannst við ekki alveg tilbúnir í byrjun seinni hálfleiks. Vonandi lögum við það í næsta leik þegar við förum til Eyja og þar verður jafn og erfiður leikur,“ sagði Nielsen og er sannarlega farinn að venjast toppsætinu.

„Það er alltaf gaman að vera þarna en það er meira gaman þegar kemur í apríl/maí. En við verðum að halda áfram enda er langur vegur eftir,“ sagði Nielsen, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert