Jafntefli dugði Íslandi ekki á HM

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik náði ekki að vinna upp níu marka forystu Svartfjallalands þegar liðin mættust í síðari leik umspils um sæti á heimsmeistaramótinu sem fram fer í desember. Liðin skildu jöfn í Laugardalshöll í dag, 19:19.

Fyrri hálfleikur var jafn og spennandi í byrjun, en um miðbik hans skoraði Ísland fjögur mörk í röð og náði þriggja marka forystu, 8:5. Eftir það hrökk allt í baklás, og á síðustu ellefu mínútunum skoraði liðið einungis eitt mark.

Ef ekki hefði verið fyrir magnaða frammistöðu Florentinu Stanciu í markinu hefðu hlutirnir litið illa út, en hún varði fimmtán skot í fyrri hálfleik einum. Hreint mögnuð frammistaða, en Ísland var einu marki undir í hálfleik, 11:10.

Jafnræði var með liðunum framan af síðari hálfleik, en mistök íslenska liðsins í sókninni voru dýrkeypt. Florentina hélt hins vegar uppteknum hætti í markinu sem hélt Íslandi í leiknum, en Svartfellingar voru að jafnaði einu til tveimur mörkum yfir.

Lokamínúturnar voru hins vegar æsispennandi þar sem íslenska liðið hafði unnið sig inn í leikinn og náð forystunni. Þegar fimmtán sekúndur voru eftir var staðan jöfn og Svartfellingar í sókn, en Florentina varði lokaskotið. Lokatölur 19:19.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst í íslenska liðinu með 5 mörk og sem fyrr segir var Florentina Stanciu mögnuð í markinu og varði alls 28 skot.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun. Viðtöl koma hér á vefinn eftir skamma stund.

Lið Íslands: Guðrún Ósk Maríasdóttir (M), Florentina Stanciu (M). Steinunn Hansdóttir, Arna Sif Pálsdóttir, Þórey Rósa Stefánsdóttir, Rut Arnfjörð Jónsdóttir, Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Eva Björk Davíðsdóttir, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, Kristín Guðmundsdóttir, Hildur Þorgeirsdóttir, Ramune Pekarskyte, Unnur Ómarsdóttir, Sunna Jónsdóttir.

Ísland 19:19 Svartfjallaland opna loka
60. mín. Leik lokið Jafntefli niðurstaðan. Ísland fer ekki á HM.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert