Mikið af klaufalegum mistökum

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst í dag með fimm mörk.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst í dag með fimm mörk. Ómar Óskarsson

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst þegar íslenska kvennalandsliðið gerði jafntefli, 19:19, við Svartfjallaland í undankeppni heimsmeistaramótsins í Laugardalshöll í dag. Liðið þurfti engu að síður að vinna upp níu marka forystu og því dugði jafnteflið ekki til hvað það varðar.

„Þetta var betra en úti, en mér fannst við eiga skilið sigurinn þó jafntefli sé auðvitað betra en tap. Það er mjög gott að halda þeim í nítján mörkum og Florentina var alveg frábær í markinu. Það er svekkjandi að ná ekki að nýta það í fleiri hraðaupphlaupum,“ sagði Hrafnhildur við mbl.is eftir leikinn, en hún var markahæst í íslenska liðinu með fimm mörk.

Florentina Stanciu varði 28 skot í íslenska markinu auk þess sem vörnin stóð sig vel allan leikinn, en helst var það sóknarleikurinn sem hikstaði og liðið skoraði til að mynda einungis eitt mark síðustu ellefu mínútur fyrri hálfleiks. Hrafnhildur segir að það hafi munað mikið þá lykilmenn sem ekki voru með að þessu sinni.

„Það munar alveg um það, en í staðinn fáum við yngri leikreynsluna í staðinn sem hjálpar vonandi í framtíðinni. Við gerum mikið af klaufalegum mistökum og það eru einföld atriði sem eru helst að klikka, en við sem erum nýkomnar inn í landsliðið fáum dýrmæta leikreynslu og getum vonandi hjálpað betur til í framhaldinu,“ sagði Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert