Við ætluðum okkur að vinna

Rut Jónsdóttir með boltann gegn Svartfjallalandi í dag.
Rut Jónsdóttir með boltann gegn Svartfjallalandi í dag. Eggert Jóhannesson

Rut Jónsdóttir, landsliðskona í handknattleik, segir svekkjandi að hafa ekki náð að vinna Svartfjallaland í síðari leik liðanna í undankeppni heimsmeistaramótsins, en liðin skildu jöfn í Laugardalshöllinni í dag, 19:19.

„Þetta var miklu betri leikur en sá fyrri en samt svekkjandi. Við hefðum getað saxað frekar á forskotið hjá þeim þarna í fyrri hálfleik, en í staðinn minnkuðu þær muninn. Svo eftir leikinn er svekkjandi að ná ekki að minnka muninn meira,“ sagði Rut við mbl.is eftir leikinn, en Ísland þurfti að vinna upp níu marka sigur Svartfjallalands frá fyrri leiknum ef vonin um HM ætti að lifa.

„Við höfum verið í miklum erfiðleikum í sókninni en það er líka búið að vera mikið um breytingar þegar Karen [Knútsdóttir ]datt út og aðrir leikmenn fá stærra hlutverk. Það tekur sinn tíma að venjast þessum breytingum, það eru yngri leikmenn að koma inn og það tekur meiri tíma að breyta sóknarleiknum,“ sagði Rut. Þrátt fyrir að ljóst yrði að erfitt væri að koma til baka frá fyrri leiknum segir Rut liðið hafa verið mjög einbeitt í öllum sínum undirbúningi.

„Þetta er svo flottur hópur og allar stelpurnar voru mjög einbeittar, ætluðu að spila betur og fyrst og fremst vinna leikinn. Það er því svekkjandi að við gerðum það ekki, en einbeitingin var til staðar og allar voru mjög tilbúnar í leikinn. Þetta var ekki eitthvað sem við vildum bara klára frá, við ætluðum okkur að vinna,“ sagði Rut Jónsdóttir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert