Er hætt að vera efnileg

Ragnheiður Júlíusdóttir.
Ragnheiður Júlíusdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ragnheiður Júlíusdóttir, hin 18 ára gamla skytta úr liði Fram, er leikmaður 5. umferðar Olís-deildar kvenna í handknattleik en hún fór mikinn með Safamýrarliðinu í 32:28 sigri liðsins á móti Selfyssingum á laugardaginn.

Ragnheiður átti stórleik og skoraði 12 mörk í leiknum og hefur þar með skorað 34 mörk í fyrstu fimm leikjum Fram-liðsins í deildinni og er markahæst í sínu liði.

Þrátt fyrir ungan aldur er Ragnheiður á sínu þriðja ári með meistaraflokki Fram. Hún skoraði 123 mörk á sínu fyrsta tímabili og var markahæst í Fram-liðinu og hún endurtók leikinn í fyrra þegar hún skoraði 122 mörk. Ragnheiður hefur spilað með öllum yngri landsliðunum og þrjá leiki hefur hún spilað með A-landsliðinu og eiga þeir örugglega eftir að verða miklu fleiri í framtíðinni. Hún var á dögunum valin í U20 ára landsliðið sem hóf æfingar um nýliðna helgi.

Morgunblaðið fékk hina reyndu Ástu Birnu Gunnarsdóttur, liðsfélaga Ragnheiðar, til að lýsa henni:

„Það má segja að Ragnheiður sé hætt að vera efnileg. Hún er bara orðin virkilega góð og hefur alla burði til að ná mjög langt í handboltanum,“ segir Ásta Birna.

Faðir Ragnheiðar, Júlíus Þór Gunnarsson, lék á árum áður með Fram og Val og á að baki 13 leiki með íslenska A-landsliðinu, og eflaust hefur hann gaukað góðum ráðum að dóttur sinni. Móðir Ragnheiðar, Guðrún Júlíusdóttir, gerði það einnig gott á íþróttasviðinu en hún er tífaldur Íslandsmeistari í badminton í tvíliða- og tvenndarleik og lék fjölda landsleikja og Evrópuleiki með TBR.

„Hún á framtíðina fyrir sér enda öflug í alla staði og hefur mikinn og góðan karakter að geyma. Ragnheiður er hress og skemmtileg stelpa og er góður liðsfélagi sem skiptir mjög miklu máli.“

Sjá allt viðtalið við Ástu Birnu þar sem hún lýsir Ragnheiði í Morgunblaðinu í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert