Theodór ekki meira með á árinu

Theodór Sigurbjörnsson.
Theodór Sigurbjörnsson. mbl.is/Eggert

Theodór Sigurbjörnsson, leikmaður ÍBV, verður frá næstu 4-5 vikurnar vegna nárameiðsla sem hann varð fyrir í upphitun með íslenska landsliðinu fyrir leikinn gegn Frökkum á Gullmótinu í Noregi um liðna helgi.

Arnar Pétursson, þjálfari Eyjamanna, staðfesti þetta við mbl.is eftir tapið gegn Fram í kvöld, 26:21, en það þýðir að Theodór mun að öllum líkindum ekki vera með ÍBV fyrr en í febrúar þegar deildin hefst að nýju eftir landsleikjahlé. Theodór mun þá missa af síðustu sjö deildarleikjum ÍBV á árinu, en hann er markahæsti leikmaður liðsins það sem af er með 79 mörk í tíu leikjum.

Theodór var nýliði í landsliðinu líkt og Arnar Freyr Arnarsson, hjá Fram, sem einnig meiddist fyrir Gullmótið. Hann fékk þá heilahristing á æfingu og sagði Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram, við mbl.is að hann hefði átt að hvíla í viku eftir það. Vikan er liðin í dag og mun það koma í ljós á næstu dögum hvort hann geti verið með í næsta leik gegn Val á mánudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert