„Skil ekki af hverju hann segir þetta“

Aron Pálmarsson í búningi Veszprém.
Aron Pálmarsson í búningi Veszprém. Ljósmynd/Veszprém

„Sagði hann þetta?,“ sagði landsliðsmaðurinn Aron Pálmarsson leikmaður ungverska liðsins Veszprém við mbl.is eftir æfingu landsliðsins í hádeginu þegar borin voru undir hann ummæli Alfreðs Gíslasonar þar sem hann sagði í viðtali við þýska blaðið Kieler Nachrichten að Aron væri ekki ánægður hjá Veszprém.

„Ég skil ekki af hverju hann segir þetta en hann má segja það sem hann vill. Ætli hann sé ekki að reyna að spila einhverja pólitík með því að reyna að fá mig aftur. Eins og staðan er í dag þá er ég ánægður hjá Veszprém. Vissulega hefur þetta verið svolítið erfitt út af þjálfaramálum liðsins. Það er alltaf eins og einhver þjálfari sé á leiðinni en svo gerist ekkert. Þetta hefur farið svolítið í taugarnar á manni en ég er í toppliði þar sem aðstæður eru allar hinar bestu. Ég myndi því alls ekki segja að ég sé óánægður. Þetta er svolítið frábrugðið Þýskalandi en ég var heldur ekkert hundrað prósent ánægður þar.

„Það er greinilegt að Alfreð vill svo mikið fá mig til baka. Ég á tvö og hálft ár eftir af mínum samningi við Veszprém svo þetta er ekkert í mínum höndum. Ég hef sagt að ég væri alveg til í að vinna aftur með Alfreð enda tel ég hann vera besta þjálfara í heimi og gott að vinna með honum. Eins og málin líta út í dag þá er ég sáttur með að eiga tvö ár eftir af samningi mínum við Veszprém.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert