Þurftum að hafa mikið fyrir sigrinum

Eva Margrét Kristinsdóttir, Gróttu. Eva Björk Davíðsdóttir, Gróttu, fagna.
Eva Margrét Kristinsdóttir, Gróttu. Eva Björk Davíðsdóttir, Gróttu, fagna. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Þrátt fyrir að sigurinn hafi verið öruggur þá þurftum við að hafa mjög mikið fyrir honum," sagði Eva Margrét Kristinsdóttir, leikmaður Gróttu, eftir fimm marka sigur liðsins á Selfossi, 28:23, í Olís-deild kvenna í handknattleik í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi. Með sigrinum endurheimti Grótta efsta sæti deildarinnar. 

Grótta náð um skeið 11 marka forskoti í síðari hálfleik og því var sigurinn mun öruggari en lokatölurnar gefa til kynna. 

„Selfossliðið gefst aldrei upp í leikjum og þar af leiðir verður maður að vera á fullri ferð gegn því allt til leiksloka. Selfossliðið er ekki efnilegt lengur heldur er það orðið virkilega gott," sagði Eva Margrét.

Spurð úr í toppbaráttuna sagði Eva Margrét að leikmenn Gróttu einbeiti sér fyrst og fremst að eigin stöðu og því að vinna alla leiki.  „Hver leikur skiptir máli en við verðum að einbeita okkur að eigin leik. Ef við vinnu alla leiki þá höldum við toppsætinu en deildin er hrikalega jöfn og skemmtileg," sagði Eva Margrét. Grótta er ríkjandi deildar,- Íslands,- og bikarmeistari í handknattleik kvenna. 

Grótta á toppinn á nýjan leik

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert