Mikil spenna í Hafnarfjarðarslagnum

Ramune Pekarskyte, Haukum.
Ramune Pekarskyte, Haukum. Eggert Jóhannesson

Haukar og FH mættust í slag erkifjendanna í Hafnarfirðinum í Olísdeild kvenna í handknattleik. Leikur liðanna var bæði jafn og spennandi og úrslitin réðust á lokasekúndum leiksins. 

Lokatölur í leiknum urðu 24:23 Haukum í vil sem minnkuðu þar af leiðandi forskot Gróttu á toppi deildarinnar í eitt stig. 

Leikmenn FH hófu leikinn betur, en Haukar náðu hins vegar frumkvæðinu í leiknum og voru með eins til tveggja marka forystu megnið af seinni hálfleiknum. 

Sigrún Jóhannsdóttir jafnaði metin fyrir FH þegar rúm hálf mínúta var eftir af leiknum. Það var svo Ramune Pekarskyte sem tryggði Haukum eins marks sigur þegar rúmlega tíu sekúndur voru eftir af leiknum. 

Karen Helga Díönudóttir var markahæst í liði Hauka með níu mörk og Elín Anna Baldursdóttir sem var markahæst í liði FH skoraði sömuleiðis níu mörk. 

Haukar eru með 34 stig í öðru sæti deildarinnar eftir þennan sigur, en FH með sjö stig í 13. sætinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert