Reynst mikill happafengur

Patricia Szölösi.
Patricia Szölösi. mbl.is/Golli

Hin ungverska Patricia Szölösi, leikstjórnandi Fylkis, átti hreint skínandi leik með Árbæjarliðinu þegar það hrósaði góðum sigri á móti ÍBV í Eyjum um nýliðna helgi.

Szölösi skoraði 8 mörk og var markahæst í Fylkisliðinu og er leikmaður 20. umferðar Olís-deildar kvenna.

Szölösi er 24 ára gömul og er á sínu þriðja ári hjá Fylki. Hún lék í dönsku 2. deildinni og kom þaðan til Fylkis en þar áður lék hún með ungverska stórliðinu Györi.

Morgunblaðið fékk Halldór Stefán Haraldsson, þjálfara Fylkisliðsins, til gefa álit sitt á Szölösi sem hefur farið mikinn með Árbæjarliðinu á leiktíðinni. Hún hefur skorað 137 mörk í leikjunum 20 og er á meðal markahæstu leikmanna í deildinni.

„Þetta val kemur mér ekki á óvart. Hún átti virkilega góðan leik í Eyjum og þetta tímabil er hennar langbesta,“ sagði Halldór.

„Hún kom til okkar þegar við vorum á öðru ári í deildinni og það má með sanni segja að hún hafi breytt liðinu algjörlega. Hún er búin að bæta sig mikið. Hún var svolítið óöguð á fyrsta tímabilinu sem hún spilaði með okkur en hefur náð að þroskast gríðarlega hjá okkur og er orðin hrikalega flottur og agaður miðjumaður. Hún hefur góða stjórn á spilinu og kann að róa niður liðið þegar einhverjar aðstæður koma og hlutirnir eru að fara úr böndunum. Patricia er flottur alhliða leikmaður.

Hún skorar fullt af mörkum, er með góða nýtingu á vítalínunni, býr til færi fyrir meðspilara sínum og hún stýrir sóknarleik liðsins af mikilli festu. Boltinn flæðir vel í gegnum hana og hún er dugleg að finna bestu lausnirnar í sókninni. Hún hefur frábært auga,“ segir Halldór Stefán.

Sjá allt viðtalið við Halldór Stefán í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert