„FH-ingarnir skutu mig í stuð“

Kristófer Fannar Guðmundsson.
Kristófer Fannar Guðmundsson. mblis/Eva Björk Ægisdóttir

Kristófer Fannar Guðmundsson, markvörður Aftureldingar, hitti á sannkallaðan stórleik þegar FH og Afturelding skildu jöfn í æsispennandi leik í Olís-deild karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld.

Kristófer var öðrum ólöstuðum maður leiksins en hann varði alls 24 skot í leiknum og gerði leikmönnum FH-inga svo sannarlega lífið leitt.

„Já ég neita því ekki að ég hefði viljað vinna leikinn og ekki síst vegna þess að ég fann mig vel í markinu en FH-ingarnir eru með gott lið. Við misstum þá fjórum mörkum á undan okkur snemma í seinni hálfleik en við sýndum góðan karakter með því að koma okkur aftur inn í leikinn. Ég hélt að við ætluðum að hafa þetta þegar við komust tveimur mörkum yfir undir lokin en það má kannski segja að jafnteflið hafði verið sanngjörn úrslit þegar á allt er litið,“ sagði Kristófer Fannar við mbl.is eftir leikinn.

Kristófer varði sex skot á fyrstu þremur mínútum leiksins og það var ekki fyrr en í áttundu tilraun sem FH-ingum tókst að finna leiðina fram hjá honum.

„Það má kannski segja að FH-ingarnir hafi skotið mig í stuð. Það gefur manni sjálfstraust að verja en vörnin var betri en hún hefur verið í síðustu leikjum og auðvitað hjálpaði það til. Ég er að komast aftur inn í þetta eftir meiðsli og vonandi verður framhald á þessu hjá mér,“ sagði Kristófer Fannar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert