Vanir að skammast en þetta var fullmikið af því góða

Orri Freyr Gíslason er algjör lykilmaður í liði Vals.
Orri Freyr Gíslason er algjör lykilmaður í liði Vals. mbl.is/Ófeigur

„Við erum svolítið blóðheitir allir. Við höfum verið svona í allan vetur, látið hver annan heyra það, en þetta var kannski fullmikið af því góða í dag. Ég get alveg viðurkennt það,“ sagði Orri Freyr Gíslason, línumaður Vals, eftir 20:18-tapið gegn Fram í Olís-deildinni í handbolta í dag.

Valsmenn skömmuðu hver annan reiðilega undir lok leiksins, og þegar flautað hafði verið til leiksloka, enda er liðið í frjálsu falli í Olís-deildinni og hefur aðeins unnið einn leik eftir áramót en tapað fimm og gert tvö jafntefli. Bikarmeistararnir eru nú í 5. sæti deildarinnar, tveimur stigum á undan Gróttu og Selfossi.

„Það er bara ekkert að ganga upp hjá okkur. Við vorum með 18 tæknifeila í dag. Hefur eitthvert lið unnið leik með 18 tæknifeila? Svo erum við alltaf að kenna næsta manni um, í stað þess að spila sem eitt lið. Þá eigum við ekki skilið að vinna. Framararnir sýndu klassahjarta. Það sást í augunum á þeim hvað þeir vildu en við vorum hægir í öllu. Þegar við vorum að komast í gegn náðu þeir alltaf að brjóta á okkur, í stað þess að við fleygðum okkur inn í færið,“ sagði Orri.

Við erum ekkert þreyttir

Valsmenn urðu bikarmeistarar fyrir skömmu og eru komnir í 8-liða úrslit Áskorendabikars Evrópu þar sem þeir spila næsta laugardag. Er ekki bara komin mikil þreyta í hópinn?

„Við erum ekkert þreyttir. Við erum alveg að passa það að æfa ekki mikið á milli leikja. Það sem er að er það að við erum ekki að spila sem lið. Það er vandamálið í dag. Sóknarleikurinn er að drepa okkur. Við gerum allir of mikið af mistökum, látum ekki boltann rúlla og brjótum okkur alltaf út úr kerfunum sem við ætlum að spila,“ sagði Orri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert