Nýta þarf tækifærin sem maður fær

Einar Sverrisson sækir að marki Aftureldingar í kvöld. Til varnar …
Einar Sverrisson sækir að marki Aftureldingar í kvöld. Til varnar eru Jóhann Jóhannsson og Árni Bragi Eyjólfsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, sagði að sínir menn hefðu þurft að ná upp stærra forskoti í fyrri hálfleik gegn Aftureldingu í kvöld. Afturelding sigraði 31:17 en Selfoss var yfir 9:8 að loknum fyrri hálfleik. 

Framliggjandi vörn Selfoss gekk mjög vel í fyrri hálfleik og eftir korter hafði Afturelding aðeins skorað tvö mörk. Selfyssingar höfðu sjálfir ekki ekki gert meira en fjögur mörk og nýttu því ekki góða frammistöðu sína í vörninni nægilega vel.

„Í rauninni hefðum við getað verið með betri stöðu eftir korter. Þá hefðum við þurft að nýta sóknirnar okkar betur. Við fengum bæði tækifæri í hraðaupphlaupum og ágæt færi í sókninni. Við hefðum þurft að nýta þetta því meðbyrinn var með okkur. Við vorum að leiða leikinn en fórum bara með eins marks forskot inn í hálfleik. Sá munur hefði alla vega getað verið tvö til þrjú mörk. Það hefði breytt miklu þegar farið var inn í seinni hálfleikinn. Þarna þurfum við að gera betur því mér fannst við vera töluvert betri aðilinn í fyrri hálfleik en þá þarf maður náttúrulega að nýta þau tækifæri sem maður fær. Það kom í bakið á okkur þegar sóknarleikur þeirra fór að virka í seinni hálfleik að vera ekki með betri stöðu,“ sagði Stefán þegar mbl.is tók hann tali í kvöld. 

Þegar enn voru sautján mínútur eftir af leiknum var forysta Aftureldingar þrjú mörk en eftir það má segja að leikur Selfyssinga hafi hrunið með þeim afleiðingum sem úrslitin sýna. „Þeir fengu allt of auðveld mörk undir lokin og við slökuðum allt of mikið á. Sigurinn var svo sem úr augsýn en við hefðum mátt klára þennan leik af meiri krafti. Sóknarleikur okkar var auk þess slakur í seinni hálfleik.“

Stefán Árnason.
Stefán Árnason. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert