„Ég veit ekki hvernig hann fór inn“

Ragnheiður Júlíusdóttir á skot að marki Hauka.
Ragnheiður Júlíusdóttir á skot að marki Hauka. mbl.is/Golli

„Ég man ekki rosalega mikið eftir þessu,“ sagði Ragnheiður Júlíusdóttir, hetja Fram, þegar mbl.is greip hana tali eftir að hún tryggði Fram svakalegan sigur á Haukum, 23:22, í fyrsta einvígisleik liðanna í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitil kvenna í handknattleik.

Ragnheiður skoraði sigurmarkið beint úr aukakasti þegar leiktíminn var runninn út. Hún var þá með þéttan varnarvegg fyrir framan sig en náði að koma boltanum í gegn og beint upp í skeytin.

„Ég sá Ramune [Pekarskyte] beint fyrir framan mig, þetta var mjög hávaxinn veggur en ég ákvað bara að skjóta. Ég veit ekki hvernig hann fór inn, en hann fór inn,“ sagði Ragnheiður, sem var markahæst hjá Fram í dag þrátt fyrir að eiga ekki góðan fyrri hálfleik eins og liðið allt.

„Mér leist ekki nógu vel á þetta. Við bara vorum ekkert að berjast, misstum boltann og gerðum léleg mistök í seinni bylgjunni. En leikurinn er 60 mínútur og við spiluðum bara miklu betri seinni hálfleik,“ sagði Ragnheiður.

Fram hafði nokkra yfirburði lengst af í deildinni í vetur og fyrir þetta einvígi var mikið talað um að Haukar ættu eftir að eiga í basli. Kom Hauka-liðið eitthvað á óvart í leiknum?

„Alls ekki. Við erum búnar að tapa fyrir þeim einu sinni í vetur og það eru bara hörkuleikir núna fram undan. Þetta verður örugglega svona jafnt alla næstu leiki, það er mjög erfitt að fara á Ásvelli og spila þar en við mætum bara tilbúnar,“ sagði Ragnheiður Júlíusdóttir við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert