Bikarmeistararnir minnkuðu muninn

Engin verðlaunaafhending verður í Mýrinni í Garðabæ í dag. Stjarnan hafði betur gegn Fram, 23:19, í þriðja úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitil kvenna í handknattleik í TM-höllinni. Fram er þá 2:1 yfir í úrslitarimmunni en vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari. 

Fram vann tvo fyrstu leiki liðanna, 25:24 og 25:22. Næsti leikur verður í Safamýri á miðvikudaginn. 

Garðbæingar voru miklu grimmari strax frá upphafi. Eftir upphafsmínúturnar var ótrúleg staða á töflunni, 9:2 fyrir Stjörnuna. Munurinn fór mest upp í níu mörk og þetta forskot sem Stjarnan náði snemma lagði grunninn að sigrinum. 

Þegar langt var liðið á leikinn söxuðu Framarar aðeins á forskotið og munurinn var kominn niður í fjögur mörk þegar rúmar fimm mínútur voru enn eftir. En lengra komst Fram ekki og sigur Stjörnunnar var ekki í mikilli hættu. 

Hafdís Renötudóttir varði vel í marki Stjörnunnar í fyrri hálfleik en Heiða Ingólfsdóttir leysti hana af þegar leið á leikinn. Þær vörðu samtals 14 skot og þar af tvö víti. Fengu aðeins á sig 19 mörk sem verður að teljast virkilega gott. Guðrún Ósk Maríasdóttir varði 17 skot í leiknum og þar af eitt vítakast en það dugði ekki til. 

Sólveig Lára Kjærnested átti flottan leik hjá Stjörnunni. Gaf tóninn strax í upphafi leiks, hélt alltaf áfram að ógna og endaði með 8 mörk. Hanna G. Stefánsdóttir skilaði 7/3 mörkum. Sigurbjörg Jóhannsdóttir skoraði 6/2 mörk fyrir Fram og Steinunn Björnsdóttir var með 5 mörk. Skytturnar Ragnheiður Júlíusdóttir og Hildur Þorgeirsdóttir áttu hins vegar erfitt uppdráttar í þetta skiptið. 

Stjarnan 23:19 Fram opna loka
60. mín. Hanna G. Stefánsdóttir (Stjarnan) á skot í slá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert